„Heiður að vera í gestgjafahlutverkinu“

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, setti ráðstefnuna í …
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, setti ráðstefnuna í morgun og ræddi um aðlögun í loftslagsmálum. Ljósmynd/Veðurstofa Íslands/Arnar Valdimarsson

„Saga mannkynsins er saga aðlögunar,“ hóf Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, mál sitt er hann ávarpaði norræna ráðstefnu um loftslagsbreytingar og aðlögun, NOCCA23 eins og hún heitir, sem hófst í morgun á Grand hóteli og fer fram þar í dag og á morgun.

Það er Veðurstofa Íslands sem stendur fyrir ráðstefnunni í samstarfi við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og verður þar sérstök áhersla lögð á hvernig sveitarfélög á Norðurlöndunum búa sig undir áhrif og afleiðingar loftslagsbreytinga.

Sagði ráðherra enn fremur að skilnings væri þörf á þeirri áhættu sem jarðarbúar byggju við í sínu nærumhverfi hvað loftslagsmál snerti, en til að öðlast hann væri einnig nauðsynlegt að geta horft á hlutina í víðara og hnattrænna samhengi.

Náttúrumiðaðar lausnir

Áhrif loftslagsbreytinga væru orðin vel sýnileg og því væri tími aðlögunar og aðgerða nú runninn upp. Rifjaði hann að þessi ráðstefna væri sú sjötta á vegum norræna aðlögunarteymisins og Ísland hefði einnig hýst fyrstu ráðstefnuna á sínum tíma.

„Það er mikill heiður að vera í gestgjafahlutverkinu hér í Reykjavík fyrir svo magnaðan hóp alþjóðlegra sérfræðinga. Ég óska ykkur árangursríkrar og ánægjulegrar ráðstefnu,“ sagði ráðherra og kvaðst vonast til þess að dagskrá ráðstefnunnar stæði undir væntingum gesta.

Á dagskrá NOCCA23 er meðal annars að finna umræður um skipulagsgerð með það að markmiði að auka loftslagsþol, áskoranir tengdar hækkandi sjávarstöðu, áhrif loftslagsbreytinga þvert á landamæri og náttúrumiðaðar lausnir sem leið jarðarbúa til að búa sig undir breyttan heim.

Veikleikana þarf að þekkja

Guðlaugur kvað það von sína að samkoman mætti verða til þess að þróa framtíðarsýn um loftslagsaðlögun enn fremur og spurði svo hvernig þjóðir við heimskautsbaug mættu takast á við loftslagsbreytingar. „Hvaða gagnsemi færir aðlögun norrænu ríkjanna í loftslagsmálum heimsbyggðinni?“ spurði ráðherra og svaraði því til að öflugar lausnir væru lykillinn og þar væru sterk sveitarfélög forsenda. Veikleikana þyrfti að þekkja auk þess að takast á við þá. Tilgangur ráðstefnunnar væri að koma saman og deila sérfræðiþekkingu.

„Hvaða gagnsemi færir aðlögun norrænu ríkjanna í loftslagsmálum heimsbyggðinni?“ spurði …
„Hvaða gagnsemi færir aðlögun norrænu ríkjanna í loftslagsmálum heimsbyggðinni?“ spurði ráðherra. Ljósmynd/Veðurstofa Íslands/Arnar Valdimarsson

Á NOCCA23 eru saman komnir norrænir sérfræðingar í loftslagsmálum frá sveitarfélögum, ráðuneytum, fagstofnunum, fyrirtækjum, háskólum og félagasamtökum og verður dagurinn í dag helgaður fyrirlestrahaldi en á morgun gefst fundargestum færi á að taka þátt í vinnustofum þar sem meðal annars verður notast við íslensk tilfelli til þess að leita úrlausna.

Guðlaugur þakkaði norrænu ráðherranefndinni stuðning hennar við að stefna sérfræðingahópnum saman í Reykjavík í dag en nefndin fjármagnar ráðstefnuna. „Ég þakka ykkur öllum fyrir að auðga norræna loftslagsstefnu,“ sagði ráðherra í lokaorðum sínum, sem beint var til ráðstefnugesta, og þakkaði enn fremur Veðurstofu Íslands en það er skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar þar sem annast skipulagningu ráðstefnunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert