Málið gegn Björgólfi tefst vegna meints vanhæfis

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson. mbl.is/RAX

Aðalmeðferð í máli þriggja málsóknarfélaga hluthafa Landsbanka Íslands gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni, sem átti að hefjast í dag fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, tafðist eftir að upplýsingar um meint vanhæfi sérfróðs meðdómara í málinu kom upp frá lögmanni Björgólfs. Verður málið tekið fyrir á miðvikudaginn.

Í október var ákveðið að aðalmeðferð málsins myndi hefjast í dag og standa í um þrjár vikur með hléum, eða til 9. maí. Jóhannes Bjarni Björnsson, lögmaður málsóknarfélaganna, segir í samtali við mbl.is að fyrir helgi hafi óvænt komið fram upplýsingar um vanhæfi Jóns Arnars Baldurs, sérfróðs meðdómara í málinu, en Jón Arnar er endurskoðandi og sérfræðingur í reikningsskilum.

Auk Jón Arnars sitja sem dómarar í málinu Jóhannes Rúnar Jóhannsson dómsformaður og Halldór Halldórsson dómari.

Í fyrirtökunni á miðvikudaginn verður fjallað um vanhæfið og í kjölfarið úrskurða um hana. Ákveði annar hvor aðili málsins að kæra þá niðurstöðu gæti úrskurðurinn farið upp í Landsrétt áður en ákvörðun liggur fyrir um hvort halda eigi áfram með málið að óbreyttu eða finna þurfi nýjan sérfróðan meðdómara.

Málsóknarfélögin þrjú eru Fiskveiðahlutafélagið Venus hf., Málsóknarfélag hluthafa Landsbanka Íslands og Málsóknarfélag hluthafa Landsbanka Íslands II.

Stefna í máli Mál­sókn­ar­fé­lags hlut­hafa í Lands­banka Íslands á hend­ur Björgólfi Thor Björgólfs­syni var fyrst þing­fest 29. októ­ber árið 2015. Fé­lag­inu var síðan skipt upp í þrjú fé­lög árið 2017 eft­ir að fyrri mál­sókn var vísað frá. Hlut­höf­un­um var þá skipt upp í hópa eft­ir því hversu lengi þeir höfðu átt bréf í Lands­bank­an­um.

Stefn­end­ur telja að Björgólf­ur hafi með sak­næm­um hætti komið í veg fyr­ir að hlut­haf­ar Lands­bank­ans fengju upp­lýs­ing­ar um um­fangs­mikl­ar lán­veit­ing­ar og einnig að hann hafi brotið gegn regl­um um yf­ir­töku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert