Segir að aldrei eigi að gefa út slíka tilkynningu

Nagladekk eru eiga auðveldara með valda vegslitum og því veldur …
Nagladekk eru eiga auðveldara með valda vegslitum og því veldur notkun þeirra meiri svifryksmengun en notkun venjulegra gúmmídekkja. mbl.is/RAX

Svava S. Steinarsdóttir, heil­brigðis­full­trúi hjá heil­brigðis­eft­ir­liti Reykja­vík­ur, gagnrýnir lögregluna fyrir að sekta ekki fyrir akstur á nagladekkjum fyrr en í maí. Hún segir að það sé mikilvægt að hvetja fólk til þess að skipta út nagladekkjum sem fyrst, þar sem akstur á slíkum dekkjum valdi aukinni loftmengun sem geti haft slæm áhrif á heilsufar.

„Það sem við höfum gagnrýnt við þetta verklag lögreglunnar er að þó það geti vel verið að einhvers staðar á landinu gætu skapast aðstæður á þessum tíma, þar sem að nagladekk gæti verið talin nauðsynleg, er nú orðið langt síðan slíkar aðstæður voru hér í borginni,“ segir Svava í samtali við mbl.is.

Hún segir að ástandið sé sjaldnast þannig á vorin í Reykjavík að nauðsynlegt sé að vera á nagladekkjum til að komast á milli staða. Þá sé bæði verið að slíta göturnar og mynda svifryk.

„Við viljum hvetja fólk til þess að skipta út nagladekkjum sem fyrst,“ segir hún. „Ekki vera að gefa lengri gálgafrest með því að gefa út tilkynningar um að ekki verði sektað.“

Engar veðuraðstæður sem mæli með þessu

Að mati Svövu ætti að vera hægt að veita heimild til undantekningar á nagladekkjanotkun á ákveðnum landssvæðum eða í ákveðnum landshlutum en henni finnst það ekki rétt að leyfa slíkt öllu landinu ef ekki nægur rökstuðningur liggur fyrir.

„Mér finnst mjög slæmt að það sé gefin út ein almenn tilkynning um að það sé ekki sektað þó að það séu engar veðuraðstæður sem mæli með notkun nagladekkja á þessu svæði, eins og hér í Reykjavík,“ segir hún.

Svifryk í umferðinni
Svifryk í umferðinni mbl.is/​Hari

Svava segir að eðlilegra væri að slíkar undantekningar væru metnar út frá aðstæðum að hverju sinni og tilkynningar væru gefnar út í samræmi við það

Hún segir að það ætti aldrei „óháð aðstæðum að gefa út svona tilkynningu því eina sem það gerir er að fresta og í rauninni lengja nagladekkjatímabilið.“

Mengunin þung á lungun

„Hvern dag er nýmyndun á ryki. Þannig við erum að fjölga dögum þar sem verið er að skemma göturnar okkar og þar að leiðandi auka líkur á verri loftgæðum,“ segir Svava og bætir við að slæm loftgæði hafi ýmis heilsufarsáhrif í för með sér.

„Svifryk veldur óþægindum og ertingu í öndunarvegi ef það er mikið af því. Það eykur áhættuna á heilablóðföllum og hjartaáföllum og ef til lengri tíma er litið getur þetta valdið ýmsum heilsufarsáhrifum og eykur líkur á öndunarfærasjúkdómum,“ segir Svava.

Hún segir að börn og fólk með undirliggjandi sjúkdóma séu í áhættuhóp.

„Börn sem vaxa upp nálægt umferðarþungum götum geta verið með skerta lungnarýmd af þessum orsökum,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert