Lausn er fundin vegna förgunar á hræjum fjárstofnsins á Syðri-Urriðaá en farga þarf stofninum tímanlega fyrir sauðburð út frá velferð sauðfjárins.
Niðurskurður átti að hefjast í dag en Sorpvinnslustöðin Kalka, eina stöðin sem sér um förgun á hræjum, gat ekki tekið við hræjunum frá Syðri-Urriðaá vegna bilunar í búnaði.
Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, segir að málið sé að leysast og að hægt verði að fara í niðurskurðinn á morgun.
„Sveitarfélagið kom með tillögu að lausn og það er verið að ganga frá því en ég get ekki gefið frekari upplýsingar um það. Það borgar sig ekki að fara nánar út í það í kvöld. Aðalatriðið er að það er að finnast lausn og þá er hægt að fara í niðurskurðinn,“ segir Sigrún.
Uppfært klukkan 20.15:
Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, segir í samtali við mbl.is, urðun einu færu leiðina og því verði hún farin. Hún segist ekki hafa áhyggjur af því að hræin verði urðuð.
„Við höfum urðað í áratugi þó það teljist óvanalegt í dag. Fylgt verður leiðbeiningum frá Umhverfisstofnun um hvernig það mun fara fram.
Það verður tryggilega frá þessu gengið og yfirborði lokað þannig að engin hætta sé á því að smit berist frá þessum urðunarstað, segir Sigurborg en bætir því við að formleg staðfesting hafi ekki borist um að lausn sé fundin.
„Maður segir ekkert fyrr en þetta er í hendi en okkar áætlanir miða að því að aðgerðir hefjist á morgun.“
Hún segist ekki vita hvað aðgerðirnar komi til með að taka langan tíma.
„Hræin verða sett í lekahelda gáma þar til gröf hefur verið tekin og hægt verður að urða,“ segir Sigurborg.