„Það er yndislegt veður, búið að vera logn og blíða,“ segir Aðalgeir Egilsson, bóndi á Mánárbakka á Tjörnesi, í samtali við mbl.is en í dag mældust 16,4 gráða hiti þar á bæ.
Landsmenn víða á norðaustanverðu landinu hafa fengið að njóta góðs af veðurblíðunni. 16 gráður mældust á Seyðisfirði í morgun og á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði mældust 18 gráður upp úr hádegi í dag.
Aðalgeir kveðst hafa notið veðursins til hins fyllsta í dag enda ekki oft sem slíkur hiti mælist í aprílmánuði. Hann segir þetta þó ekki fyrsta skiptið sem slíkar hitatölur sjást svo snemma en Aðalgeir sinnti veðurathugunarstörfum á svæðinu í 60 ár.
„Auðvitað nýtur maður þess og fer út að labba, en maður nýtur nú þessa dags ekkert meira en annarra daga.“ segir hann og hlær. „Þeir eru svo margir góðir.“