Enn ríkir óvissa um það hvort náist að aflífa fjárstofninn á Syðri-Urriðaá fyrir sauðburð vegna óvissu um förgun á hræjunum. Ef ekki tekst að leysa förgunarmál fyrir lok dags verður aflífun frestað fram á sumar.
Þetta segir Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, í samtali við mbl.is.
Riða greindist á bænum á föstudag og þarf því að aflífa rúmlega 700 kindur.
„Við ætluðum að byrja í dag en við urðum að fresta því af því að förgunarleið er ekki klár. Þannig að við höfum í raun bara morgundaginn upp á að hlaupa. Það þarf bara að finna lausn í dag eða ekki,“ segir hún.
Sorpvinnslustöðin Kalka er eina stöðin sem sér um förgun á hræjum, en hún getur ekki tekið við hræjunum frá Syðri-Urriðaá vegna bilunar í búnaði.
Á miðvikudag er sauðburður of nærri til þess að leyfilegt sé að aflífa kindurnar.
„Það er ekki forsvaranlegt út frá velferð að flytja eða aflífa dýr sem eru svona langt gengin meðgöngu.“
Sigurborg segir að dýr sem séu gengin meira en 90% meðgöngu eigi ekki að flytja.
Það tekur lengri tíma fyrir fullburða fóstur í móðurkviði að drepast heldur en móðurina. Móðirin er svipt meðvitund með skoti og síðan er hún blóðtæmd og blóðtæmingin og súrefnisleysið veldur því að fóstrið drepst.
Það er á ábyrgð sveitarfélagsins og Umhverfisstofnunar að leysa förgunarmál. Ef lausn finnst þarf síðan að fá samþykki undanþágu frá umhverfisráðuneytinu.
Spurð hvort Matvælastofnun hafi burði til að aflífa öll dýrin fyrir lok morgundagsins svarar Sigurborg játandi.
„Flöskuhálsinn hefur alltaf verið förgunarleiðin. Þess vegna höfum við þurft að taka þetta í áföngum en við getum aflífað á einum degi alla hjörðina.“