Landgræðslan telur að hugsa megi betur hvort ekki finnist heppilegra nafn á sameinaða stofnun Landgræðslunnar og Skógræktarinnar en Land og skógur.
Þetta kemur fram í umsögn Árna Bragasonar, landgræðslustjóra um stjórnarfrumvarp, sem nú er í meðförum Alþingis um sameiningu stofnananna tveggja.
Í umsögninni er vísað til athugasemda með frumvarpinu þar sem segir, að ákveðið hafi verið snemma í ferlinu að velja nýtt og þjált heiti á stofnunina. Land og skógur sé lýsandi fyrir starfsemi stofnunarinnar og hafi skírskotun til verkefna og heita eldri stofnana.
„Landgræðslan telur að það megi alveg hugsa það betur hvort ekki finnist heppilegra nafn á nýja stofnun. Þannig sýnist nafnið Land og skógur hvorki sérstaklega þjált né heldur er auðvelt að átta sig á tengingu við verkefni og heiti eldri stofnana, a.m.k. ekki Landgræðsluna. Landgræðslan leyfir sér að nefna hugmyndir sem upp hafa komið fram í sameiningarferlinu, s.s. Land og líf, Stofnun landgæða og Fold,“ segir í umsögninni. Þar eru einnig lagðar til nokkrar aðrar breytingar á frumvarpinu.
Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri, segir hins vegar í umsögn að frumvarpið endurspegli það sem ákveðið var að gera og á þann hátt sem um hafi verið rætt. Hann leggi því engar breytingar til á frumvarpinu en áréttar að nauðsynlegt sé að vel verði vandað til verka á allan hátt.