30 daga fangelsi fyrir hótanir

Áreitið hafði staðið yfir í rúm tvö ár.
Áreitið hafði staðið yfir í rúm tvö ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í lok síðasta mánaðar þar sem karlmanni á fertugsaldri var gert að sæta fangelsi í 30 daga vegna hótana og áreitis í garð konu. Maðurinn hefur áður hlotið dóm fyrir brot gegn almennum hegningarlögum.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gaf út ákæru á hendur manninum þann 8. nóvember 2022 fyrir að hafa að kvöldi miðvikudagsins 15. júlí 2020 hringt í konuna og hótað að rústa henni og fjölskyldu hennar. Maðurinn hafði kynnst konunni í gegnum starf hennar.

18 símtöl á sólarhring

Maðurinn hringdi í konuna úr mismunandi símanúmerum en flest urðu símtöl hans 18 talsins á einum sólarhring. Vöktu hótanir hans mikinn ótta hjá konunni og fjölskyldu hennar þar sem maðurinn sagðist vita hvar hún byggi. Eiginmaður konunnar sagði áreitið hafa staðið yfir í rúm tvö ár en sjálfur hafði hann beðið viðkomandi að hætta að hringja, annars myndu þau leggja fram kæru á hendur honum. Maðurinn svaraði því þá til að hann sæi ekkert athugavert við hegðun sína.

Kannaðist ekki við hótanirnar

Maðurinn viðurkennir að hafa hringt í konuna og var sími hans meðal annars skoðaður sem staðfesti frásögn hennar um stöðugt áreiti. Hann neitaði hins vegar alfarið að hafa hótað henni og kannaðist ekki við slíka hegðun af sinni hálfu. 

Aðstandendur konunnar lýstu breyttri hegðun hennar eftir allt áreitið og sögðu hana hafa orðið töluvert varari um sig. Þá hafi hún óttast um líf sitt, heilbrigði og velferð. Framburður konunnar þótti stöðugur og trúverðugur sem og vitna sem að málinu komu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert