Allt nema sósan klikkaði

Skömmu fyrir frumsýningu leikritsins Hvað ef sósan klikkar? klikkaði ansi …
Skömmu fyrir frumsýningu leikritsins Hvað ef sósan klikkar? klikkaði ansi margt. Allt blessaðist þó að lokum hjá Gunnellu Hólmarsdóttur og meira að segja sósan klikkaði ekki á frumsýningunni.

Síðasti sólarhringurinn fyrir frumsýningu leikritsins Hvað ef sósan klikkar? var ansi taugatrekkjandi fyrir Gunnellu Hólmarsdóttur, höfund verksins. Tjaldið á sviði Tjarnarbíós hrundi tæpum sólarhring fyrir frumsýningu og kalla þurfti út neyðarteymi til að hengja það upp. Nokkrum mínútum áður en hleypa átti gestum inn í salinn á sunnudagskvöld kom svo í ljós að ljósabúnaður hékk á bláþræði og þurfti að laga það. 

„Ég hef alltaf haldið því opnu að þá má alls konar klikka í sýningunni. Flest má klikka. En hlutir eins og að tjaldið hrynji, sem er rosalega mikilvægur partur af leikritinu því ég er með viðtöl við ömmu mína sem eru mjög viðkvæm. Þetta heldur utan um heildarútlitið á sýningunni,“ segir Gunnella í samtali við mbl.is. 

Í leikritinu eldar Gunnella hátíðarmáltíð á sviðinu í matreiðsluþáttastíl og fá áhorfendur þá upplifun að þeir séu að horfa á einn slíkan. Verkið er heimildar sviðsverk skrifað um áhrif matreiðslubóka á taugaáföll kvenna. Ítarlegt viðtal um sýninguna birtist í Morgunblaðinu á laugardag.

Tjaldið teipað upp

„Það þýddi að við þurftum að kalla inn fullt af fólki. Tjaldið hrynur því það er orðið of gamalt, límið sem hélt því uppi var bara búið. Þetta er ógeðslega þungt og ógeðslega stórt. Þannig við þurftum að færa til alla leikmyndina og ná í lyftara. Við rétt náðum að teipa tjaldið upp, en við þurftum að færa það til því það er ekki á sama stað og upphaflega hönnunin gerði ráð fyrir,“ segir Gunnella.

Því fylgdi að endurhanna þurfti alla lýsingu og stilla til á frumsýningar dag. Kjartan Darri Kristjánsson ljósahönnuður sýningarinnar stökk til á sunnudag og luku þau við að lagfæra allt um klukkutíma fyrir frumsýningu. Það er ekki eitthvað sem listamenn vilja endilega standa í „korter í frumsýningu.“

Vandræðagangurinn endaði ekki þarna, skömmu áður en hleypa átti frumsýningargestum inn í salinn rak sýningarstjórinn augun í að keðja hefði slitnað í ljósabúnaðinum og að allur búnaðurinn hékk á einni snúru. 

„Þá þurfti að kalla til teymi aftur og færa sviðsmyndina og ná í lyftarann. Það þorði enginn að hreyfa við þessu af hræðslu um að þetta myndi hrynja og að það hreinlega yrði stórslys. En því var afstýrt,“ segir Gunnella en af þessari ástæðu seinkaði frumsýningunni aðeins. 

Gunnella eldar hátíðarmáltíð á sviðinu í matreiðsluþáttastíl og fá áhorfendur …
Gunnella eldar hátíðarmáltíð á sviðinu í matreiðsluþáttastíl og fá áhorfendur þá upplifun að þeir séu að horfa á einn slíkan. Verkið er heimildar sviðsverk skrifað út frá rannsóknarspurningunni um áhrif matreiðslubóka á taugaáföll kvenna.

Rosalega taugatrekkjandi

Frumsýningin gekk þó vel, en Gunnella segist varla vita hvað hún var að gera fyrstu 15 mínútur sýningarinnar. „Ég fór bara á einhverja sjálfstýringu. En sem betur fer lá þetta vel í líkamanum og hann bara keyrði sýninguna,“ segir Gunnella. 

Það lá ekkert við taugaáfalli hjá þér?

„Jú það var þannig algjörlega. Ég er enn að jafna mig. Ég gat ekki gengið í gær. Öll orka var farin. Þetta var rosalega taugatrekkjandi,“ segir Gunnella. 

Ekki nóg með að þetta hafi verið frumsýning þá var þetta fyrst verk hennar, hún að frumsýna einlek eftir sjálfa sig. „Ég er búin að vera ein í þessu öllu. Ég er ekki einu sinni með leikstjóra. Þannig þetta hangir allt á mínu,“ segir Gunnella.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert