Bandarískir kafbátar verða þjónustaðir við Ísland

Stýriflaugakafbáturinn USS Florida. Bandaríski sjóherinn býr yfir alls þremur gerðum …
Stýriflaugakafbáturinn USS Florida. Bandaríski sjóherinn býr yfir alls þremur gerðum kafbáta. AFP

Utanríkisráðherra hefur tilkynnt bandarískum stjórnvöldum að kjarnorkuknúnum kafbátum sjóhersins verði heimilt að hafa stutta viðkomu við Ísland til að taka á móti kosti og skipta út áhafnarmeðlimum.

Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að þessi ákvörðun utanríkisráðherra sé liður í þeirri stefnu íslenskra stjórnvalda að styðja við aukið eftirlit og viðbragðsgetu bandalagsríkja á Norður-Atlantshafi.

Von á fyrsta bátnum

Von er á fyrsta kafbátnum á næstunni. Báturinn fær þjónustu í nokkurra kílómetra fjarlægð úti fyrir ströndum landsins en mun ekki hafa viðkomu í höfn.

Kafbátar af sömu gerð og um ræðir hafa reglulega viðkomu í flestum bandalagsríkjum, þar á meðal um margra áratuga skeið í höfnum í Noregi og nýverið í Færeyjum.

„Þjónustuheimsóknirnar stuðla að því að efla samfellt og virkt kafbátaeftirlit bandalagsríkja sem tryggir betri stöðuvitund og eykur öryggi neðansjávarinnviða á borð við sæstrengi á hafsvæðinu í kringum Ísland. Tíðni heimsókna mun ráðast af þörf hverju sinni,“ segir í tilkynningunni.

„Forsætisráðherra og utanríkisráðherra leggja áherslu á að það sé skilyrði fyrir komu herskipa bandalagsríkja til landsins að stjórnvöld í viðkomandi ríkjum bæði þekki og virði ákvæði þjóðaröryggisstefnu Íslands um að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga,“ segir þar enn fremur.

Tekið er fram að þessi afstaða hafi verið áréttuð í orðsendingu utanríkisráðherra til bandarískra stjórnvalda.

Kafbátarnir sem fá heimild til að hafa hér viðdvöl beri ekki kjarnavopn samkvæmt stefnu Bandaríkjanna og séu ekki útbúnir til þess.

Allir knúnir kjarnorku

Allir kafbátar í þjónustu bandaríska hersins, bæði orrustukafbátar, eins og þeir sem hér munu hafa viðdvöl, og eldflaugakafbátar, sem bera kjarnavopn, eru knúnir kjarnorku.

Bent er á í tilkynningunni að ekki séu reglur eða lög í gildi á Íslandi sem geri greinarmun á sjóförum eftir því hvaða aflgjafi knýr þau.

„Öll sjóför hafa heimild til þess að fara um íslenskt yfirráðasvæði í friðsamlegum tilgangi samkvæmt hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna. Hins vegar þurfa stjórnvöld ríkis að sækja um leyfi til utanríkisráðuneytisins til að hafa viðdvöl innan landhelgi. Sé slíkt leyfi veitt er það háð skilyrðum og reglum sem settar eru um slíkar heimsóknir,“ segir enn fremur.

Útbúnar hafi verið verklagsreglur í tengslum við þessar þjónustuheimsóknir, í náinni samvinnu utanríkisráðuneytisins, Geislavarna ríkisins, Landhelgisgæslunnar og embættis ríkislögreglustjóra. Taki þær mið af sambærilegum reglum í nágrannaríkjum.

Gert engin kjarnavopn að skilyrði

Íslensk stjórnvöld hafa átt samráð við stjórnvöld í nágrannaríkjum sem hafa margra áratuga reynslu af sambærilegum þjónustuheimsóknum kafbáta og hafa einnig gert það að skilyrði að ekki séu kjarnavopn um borð, að því er segir í tilkynningu. Utanríkisráðherra hafi kynnt málið í ríkisstjórn auk þess sem utanríkismálanefnd og þjóðaröryggisráð hafi verið upplýst um málið.

Íslensk og bandarísk stjórnvöld eru sögð hafa á síðustu árum aukið samstarf vegna eftirlits og viðbúnaðar á Norður-Atlantshafi.

„Ísland hefur um nokkuð skeið veitt gistiríkjastuðning við kafbátaleitarflugvélar Bandaríkjanna og annarra bandalagsríkja í Keflavík. Sá stuðningur, sem nú er veittur með því að heimila komu kafbáta, er liður í varnarskuldbindingum Íslands og mikilvægt framlag til sameiginlegra varna bandalagsríkja Atlantshafsbandalagsins.“

Þrenns konar kafbátar

Bandaríski sjóherinn býr yfir alls þremur gerðum kafbáta, þ.e. eldflaugakafbátum, árásarkafbátum og stýriflaugakafbátum. Allir eru þessir bátar kjarnaknúnir. 

Eldflaugakafbátar Bandaríkjanna (SSBN) eru af Ohio-gerð báta. Þeir eru gjarnan þekktir undir heitinu „boomers“, og sérstaklega hannaðir með þann tilgang í huga að skjóta á loft kjarnaflaugum.

Alls eiga Bandaríkin 14 Ohio-báta og getur hver þeirra flutt 20 kjarnaflaugar af Trident-gerð. Báturinn á að geta starfað í minnst 15 ár án þess að þurfa á mikilli viðhaldsvinnu að halda en vanalega er hver bátur á sjó í 77 daga.

Afar fráir og hljóðlátir

Árásarkafbátar Bandaríkjanna (SSN) eru af þremur gerðum, þ.e. Los Angeles-gerð, Seawolf-gerð og Virginíu-gerð. Los Angeles-bátarnir mynda hryggjarstykki kafbátaflotans, eru alls 40 talsins og eru 30 þeirra hannaðir með stýriflaugaárásir í huga. Stýriflaugarnar sem bátarnir nota eru af Tomahawk-gerð.

Seawolf-bátarnir eru þrír talsins og sagðir afar fráir og hljóðlátir. Megintilgangur þeirra er að elta uppi og granda öðrum kafbátum með tundurskeytum. Virginíu-bátarnir eru 12 talsins og er framleiðsla þeirra enn í fullum gangi. Þessum bátum er ætlað að taka við af Los Angeles-gerðinni.

Fjórir stýriflaugakafbátar

Stýriflaugakafbátar Bandaríkjanna (SSGN) eru upphaflega af Ohio-gerð, líkt og eldflaugakafbátarnir, en var breytt á árunum 2002-2007. Alls á sjóherinn fjóra stýriflaugakafbáta og getur hver þeirra borið 154 Tomahawk-stýriflaugar.

Þeim er einnig ætlað að vera eins konar stökkpallur fyrir sérsveitarmenn og getur hver bátur flutt allt að 66 sérsveitarmenn og búnað þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert