Ekki talið forsvaranlegt að stöðva aðgerðir

Riða hefur greinst á tveimur bæjum í Miðfirði síðan fyrir …
Riða hefur greinst á tveimur bæjum í Miðfirði síðan fyrir páska og skornar hafa verið niður á annað þúsund fjár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enn hefur ekki tekist að leysa hvernig farga eigi fjárstofninum á Syðri-Urriðaá sem skorinn var niður í dag. Yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun fékk upplýsingar um að lausn væri fundin og hóf niðurskurð í morgun.

Bakslag kom í málið en ekki var talið forsvaranlegt vegna dýravelferðarsjónarmiða að stöðva aðgerðir.

Unnið er hratt að lausn

„Lausnin sem komin var í sjónmál gekk ekki upp en það er unnið hratt að annarri lausn núna,“ segir Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.

Sigrún segir gert ráð fyrir því að brenna svona úrgang og að það sé alltaf fyrsti kosturinn.

„Eins og fram hefur komið er bilun í Kolku, einu brennslustöðinni í landinu. Brennslugetan er of lítil og kerfið nokkuð viðkvæmt. Það liggur í augum uppi að það þarf að leita annarra leiða og aðrar leiðir eru urðunarstaðir.“

Unnið með neyðarréttarsjónarmið

Hún segir tækifæri til að urða svona úrgang mjög lítil og lítil sem engin á þessari stundu.

„Ég held að það sé hægt að segja að það er ekki að ganga upp og þess vegna er verið að leita annarra leiða sem eru í raun neyðarúrræði í landnotkun. Þetta er bara staðan og það er eiginlega það eina sem ég get sagt.“

Aðspurð hvort breyta þurfi regluverki vegna þeirrar leiðar sem verið er að skoða segir Sigrún að unnið sé með með neyðarréttarsjónarmið.

„Þar eru dýravelferðarsjónarmið númer eitt, sjúkdómavarnir númer tvö og svo frágangur á úrganginum númer þrjú,“ segir hún.

Samstaða hjá stjórnvöldum

Sigrún segir samstöðu um að vinna eftir þessari forgangsröðun hjá þeim stjórnvöldum sem að málinu koma, sem eru Matvælastofnun, Matvælaráðuneytið, Umhverfisstofnun, umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið og sveitarfélagið.

„Það er algjör samstaða meðal yfirvalda um þessi viðbrögð og við reynum að vinna þetta eins faglega og hægt er.

Það liggja fyrir leiðbeiningar um frágang úrgangsins frá Umhverfisstofnun. Við erum að reyna að standa eins vel að þessu og hægt er,“ segir Sigrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert