Erlendir grunnskólanemar aldrei fleiri

Nemendur með erlent ríkisfang hafa aldrei verið fleiri í grunnskólum …
Nemendur með erlent ríkisfang hafa aldrei verið fleiri í grunnskólum á Íslandi. Voru þeir alls 4.114 haustið 2022 og fjölgaði þeim um 683 á milli ára. mbl.is/Hari

Nemendur með erlent ríkisfang hafa aldrei verið fleiri í grunnskólum á Íslandi. Voru þeir alls 4.114 haustið 2022 og fjölgaði þeim um 683 á milli ára.

Mest munar um að börnum frá Úkraínu fjölgaði um 203, börnum með pólskt ríkisfang fjölgaði um 107 og börnum frá Venesúela fjölgaði um 95. Nemendum með íslenskt ríkisfang fækkaði um 427 á milli áranna 2021 og 2022.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Hagstofu Íslands.

Nemendur í grunnskólum voru 47.115 og hafa ekki áður verið fleiri nemendur í skyldunámi á Íslandi. Fjölgaði þeim um 0,5% frá árinu 2021 og er skýringin rakin til aðflutnings fólks til landsins. 

13,9% nemenda hafa erlent tungumál að móðurmáli

Nemendum sem hafa erlent tungumál að móðurmáli hefur einnig fjölgað ár frá ári. Haustið 2022 höfðu 6.570 grunnskólanemendur erlent tungumál að móðurmáli, eða 13,9% nemenda, sem er fjölgun um 760 nemendur frá árinu áður.

Hafa ber í huga að hluti þessara nemenda hefur einnig íslensku sem móðurmál. Algengasta erlenda móðurmál nemenda í grunnskólum er pólska, sem er töluð af tæplega 2.100 nemendum, og meira en 300 börn tala ensku, arabísku, spænsku eða filippseysk mál. Þá má nefna að börnum sem hafa úkraínsku sem móðurmál fjölgaði úr 40 í 210 á milli ára.

Vorið 2022 kláruðu 4.604 nemendur 10. bekk en 4.258 nemendur hófu nám í 1. bekk sama haust. Alls voru 1.072 nýir nemendur í 2.-10. bekk sem ekki voru í grunnskólum á Íslandi haustið 2021. Eru börn með íslenskt ríkisfang um þriðjungur þeirra en tveir þriðju eru erlendir ríkisborgarar. Þessar tölur byggja á upplýsingum um nemendur í grunnskólum á Íslandi í október ár hvert.

174 starfandi grunnskólar

Alls starfa 174 grunnskólar á landinu skólaárið 2022-2023 sem er óbreyttur fjöldi frá fyrra ári. Vert er að minnst á nýjan skóla; Ásgarð - skóla í skýjunum, sem er eini grunnskólinn á Íslandi sem er alfarið óháður staðsetningu. Einkaskólar eru 13 talsins með rúmlega 1.450 nemendur. Í sérskólum, sem eru þrír talsins, stunduðu 174 nemendur nám.

Í þremur grunnskólum voru færri en tíu nemendur haustið 2022 en það eru Grunnskólinn í Hofgarði með þrjá nemendur, Grunnskóli Raufarhafnar með sex nemendur og Grunnskóli Drangsness þar sem sjö nemendur stunduðu nám.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert