Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur að vera kjarnorkukafbáta sem til stendur að þjónusta við Íslandsstrendur sé ekki til marks um stefnubreytingu í utanríkismálum af Íslands hálfu. Með þessu séu Vinstri grænir að sinna þeim skyldum er fylgja því að leiða ríkisstjórn og þjóðaröryggisráðs um leið.
„Nú erum við í Atlantshafsbandalaginu og höfum verið frá árinu 1949 og það er ákveðin yfirlýsing í sjálfu sér. Á þessum slóðum hefur verið miðstöð kafbátaeftirlits og ég sé ekki hvernig nokkrar þjónustuheimsóknir á ári breyti því í sjálfu sér. Ég held að það liggi alveg fyrir hvaða afstöðu við höfum tekið í heiminum. Ég sé ekki að einhverjar nokkrar þjónustuheimsóknir á ári breyti því,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.
Hún segir að VG tali fyrir því að Ísland tilheyri lágspennusvæði áfram og á þar með við að réttast sé að Ísland beiti sér fyrir því að tilheyra landsvæði þar sem líkur á átökum séu sem minnstar.
„En við höfum líka sagt að með því að taka það að okkur að leiða þetta ríkisstjórnarsamstarf myndum við um leið fylgja ákvæðum þjóðaröryggisstefnunnar af heilindum. Og ég tel eftir að hafa legið vel yfir þessu máli þá rými þetta þær skuldbindingar sem við undirgöngumst með aðild að Atlantshafsbandalaginu," segir Katrín.
Hún segir að málið hafi verið rætt í þingflokknum. „Eðli málsins samkvæmt hefur fólk áhyggjur af þeirri þróun sem við erum að sjá meðal annars vegna stríðsins í Úkraínu en einnig vegna vaxandi fjölda átaka um allan heim. Aukin vígvæðing er ekki bara í kringum okkur heldur um allan heim," segir Katrín.