Stytting vinnuvikunnar hefur leitt til þess að framleiðni á skurðstofum Landspítala hefur minnkað.
Þetta kemur fram í svari Willums Þórs Willumsonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Diljár Mistar Einarsdóttur þingmanns Sjálfstæðisflokksins á Alþingi. Segir þar að stöðugildum hafi fækkað um sjö á skurðstofum við Hringbraut og sjö á skurðstofum í Fossvogi eftir að viðvera hvers starfsmanns fór úr 40 klst. í 36 klst. á viku.
Þegar litið er til annarra heilbrigðisstofnana sem sinna skurðaðgerðum segir í svari ráðherra að styttingin hafi þrengt að starfsemi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, ekki síst á þjónustutíma stofnunarinnar, sem hefur styst. Á Akureyri er stytting vinnuvikunnar á við 1,5 stöðugildi skurðhjúkrunarfræðinga, en áhrif þessa á framleiðni hafa ekki verið mæld. Á öðrum heilbrigðisstofnunum er talið að styttingin hafi haft óveruleg áhrif. Á læknastöðinni Orkuhúsinu eru áhrifin helst þörf á umframmönnun. Á Klínikinni er þó sagt að afköst væru 4% meiri ef ekki hefði komið til styttingar.