Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segir í samtali við mbl.is að matvælaráðuneytið hafi ekki leitað til Íslenskrar erfðagreiningar vegna rannsókna á riðuveiki.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði í kvöldfréttum RÚV á laugardag að honum hafi borist mörg símtöl frá þingmönnum og ráðherrum sem spurðu hvort möguleiki væri á að Íslensk erfðagreining greini úr 200 þúsund sýnum úr sauðfé.
Kári sagði að Íslensk erfðagreining hefði það nú til skoðunar að setja upp sérstaka rannsóknarstofu til að greina sýni úr íslensku sauðfé með þeim tilgangi að leita að hinni verndandi arfgerð gegn riðu.
Svandís nefnir að Matvælastofnun hefur leitað til Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og óskað eftir mati á ræktun á verndandi arfgerð gegn sjúkdóminum til þess að byggja upp riðufrían fjárstofn hér á landi.
„Það tekur langan tíma og við þurfum svör frá okkar besta vísindafólki til þess að leggja mat á það hvort að það sé tímabært á næstu árum að breyta um stefnu í þessum efnum,“ segir Svandís og bætir við að sú von liggi því fyrir í framtíðinni að losna við riðuveikina.
En er til skoðunar í millitíðinni að nálgast veikina á annan hátt en að skera niður heilu fjárstofnana?
„Riða er mjög alvarlegur sjúkdómur sem endar með dauða. Samkvæmt þeirri þekkingu sem við höfum yfir að ráða núna þá er þetta eina leiðin, og ég fer að ráði yfirdýralæknis sem að leiðir þetta gagnvart ráðuneytinu.“