Mótmæla harðlega ákvörðun ráðherra

Stýriflaugakafbáturinn USS Florida. Bandaríski sjóherinn býr yfir alls þremur gerðum …
Stýriflaugakafbáturinn USS Florida. Bandaríski sjóherinn býr yfir alls þremur gerðum kafbáta. AFP

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga mótmælir harðlega ákvörðun utanríkisráðherra um að taka upp reglubundna þjónustu við kjarnorkuknúna kafbáta í landhelgi Íslands. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá samtökunum.

Sá fyrirvari sem settur er um að við komu herskipa og kafbáta „skuli virða ákvæði þjóðaröryggisstefnu Íslands um að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum“, er haldslaus“. Hvaða alþjóðlegu skuldbindingar eru það sem gætu vikið frá þeirri friðlýsingu? Hvernig ætla íslensk stjórnvöld að ganga úr skugga um að þeir kafbátar sem hér fara um séu ekki búnir kjarnorkuvopnum?“ segir í yfirlýsingunni.

Krefjast samtökin undanbragðalausrar friðlýsingar fyrir kjarnorkuvopnum á öllu íslensku yfirráðasvæði. Benda samtökin á að ef kafbátur sekkur í norðurhöfum, þá eru í kjarnorkuofnum hans hættuleg geislavirk efni, sem geta valdið mun alvarlegra umhverfisslysi í nágrenni Íslands en ósprungin kjarnorkuvopn.

„Þess vegna árétta Samtök hernaðarandstæðinga kröfur sínar um að umferð kjarnorkuknúinna farartækja um íslenska lögsögu verði bönnuð undantekningarlaust.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert