Neitaði tvívegis að borga reikninginn

Lögreglan að störfum í miðbæ Reykjavíkur.
Lögreglan að störfum í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglunni barst tilkynning um einstakling sem hafði pantað sér veitingar á veitingastað í hverfi 108 í Reykjavík í gær og neitað svo að borga reikninginn. Hann var kærður fyrir fjársvik.

Seinna um daginn var aftur til kynnt um sama einstakling á veitingastað í sama hverfi og var þá það sama uppi á teningnum. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu vegna fjársvikanna og ástands.

Sprautuðu úr slökkvitæki 

Tilkynnt var um að tveir einstaklingar hefðu sprautað úr slökkvitæki á stigagangi í Breiðholti. Lögreglan kom á vettvang og kom þá í ljós að þeir voru undir lögaldri. Málið var unnið með forráðamönnum, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Tilkynnt var um ógnandi mann á hóteli í miðbæ Reykjavíkur. Hann hafði verið með ógnandi tilburði við starfsfólk hótelsins.

Lögreglunni barst tilkynning um að maður hefði dottið í miðbænum og hlotið höfuðáverka. Í ljós kom að hann var ölvaður og var hann fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Sofandi í verslun 

Tilkynnt var um ölvaðan mann sem var sofandi í verslun í miðbænum. Hann var vakinn af lögreglunni og fór hann sína leið.

Í hverfi 104 reyndi maður í annarlegu ástandi að opna bíla. Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Einnig barst tilkynning til lögreglunnar um þjófnað í verslun í hverfi 210 í Garðabæ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert