Sjö milljarðar í tennur

Um 5.000 börn mæta ekki til skoðunar hjá tannlæknum.
Um 5.000 börn mæta ekki til skoðunar hjá tannlæknum. Ljósmynd/Colourbox

Sjúkratryggingar greiddu á síðasta ári rúmlega sjö milljarða króna til fólks vegna tannviðgerða og tannréttinga. Þar af nam kostnaður vegna tannréttinga um 450 milljónum króna. Kostnaðurinn hefur aukist talsvert undanfarin ár.

Í maí 2013 tóku gildi samningar við tannlækna um að allir undir 18 ára aldri skyldu njóta gjaldfrjálsrar tannlæknaþjónustu. Breytingin var innleidd í áföngum en 2018 var fullri endurgreiðslu komið á. Meðalfjöldi tannviðgerða á hvert barn hefur farið lækkandi síðan.

Gögn benda til þess að um uppsafnaða þörf á tannviðgerðum hafi verið að ræða. Áður en endurgreiðslunni var komið á skiluðu sér til að mynda aðeins um 40% barna í reglulegt eftirlit til tannlæknis með tilheyrandi afleiðingum.

Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands, segir að tannheilsa íslenskra barna hafi almennt batnað frá því að samningurinn var gerður 2013 og komum barna til tannlækna hafi fjölgað. Átak stendur yfir með embætti landlæknis til að ná til barna sem skila sér ekki í reglubundið eftirlit þrátt fyrir gjaldfrjálsar tannlækningar. Jóhanna telur að hópurinn telji um 5.000 börn.

Aukinn kostnaður vegna tannlækninga á undanförnum árum er m.a. rakinn til aukins fjölda innflytjenda. Í upphafi árs 2022 voru þeir rúmlega 16% íbúa landsins, eða 61.148, en voru 8% 2012. Þúsundir barna hafa bæst inn í íslenska heilbrigðiskerfið sem njóta fullra réttinda. Mörg þurfa á mikilli þjónustu að halda. Jóhanna segir að aukinn kostnaður sé fyrst og fremst vegna fjölgunar svæfinga vegna stærri aðgerða. „Þar sem þarf að svæfa barnið og gera við nánast hverja einustu tönn.“

Kristín Heimisdóttir, formaður Tannréttingafélags Íslands, segir að þegar horft sé til tannréttinga hafi ríkt 20 ára kyrrstaða. Algeng meðferð kosti allt að 1,5 milljónir kr. en styrkveitingar ríkisins hafi staðið í stað. Margar fjölskyldur hafi ekki efni á tannréttingum.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert