Akraneskaupstaður tekur á móti allt að 80 flóttamönnum samkvæmt samningi sem undirritaður hefur verið milli félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og bæjaryfirvalda. Þetta er tíundi samningurinn sem gerður er um samræmda móttöku flóttafólks frá því í nóvember sl. Heildarfjöldi flóttafólks samkvæmt samningunum er orðinn um 3.000.
Samræmd móttaka flóttafólks nær til fólks sem fengið hefur alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi. Markmiðið er að tryggja flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur og í hvaða sveitarfélagi það sest að.
„Við fögnum því að fá öflugan liðsauka á Skaganum og ég óska nýjum íbúum bæjarins gæfu og gengis,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Líf Lárusdóttir formaður bæjarráðs skrifaði undir samninginn fyrir hönd Skagamanna en nýr bæjarstjóri í stað Sævars Freys Þráinssonar, Haraldur Benediktsson þingmaður, er ekki kominn til starfa á Akranesi. Það gerist í vor.
„Við látum okkar ekki eftir liggja á Akranesi enda samfélagsleg skylda okkar að taka vel á móti flóttafólki sem glímir við hörmungar í sínu heimalandi,“ er m.a. haft eftir Líf Lárusdóttur í tilkynningunni.