Fimm stjórnendur verktakafyrirtækisins Brotafls hlutu 15-18 mánaða skilorðsbundna dóma fyrir stórfeld skattalagabrot og brot á bókhaldslögum. Jafnframt voru þau dæmd til að greiða samtals um 450 milljónir í sekt til ríkissjóðs. Dómurinn féll í febrúar en var fyrst birtur í dag eftir fyrirspurn mbl.is. Þrjú þeirra voru einnig dæmd í síðustu viku til að greiða þrotabúi Brotafls 86 milljónir sem þau hvert um sig höfðu tekið út af bankareikningi félagsins í reiðufé. Þau færðu ekki sönnur á að fjármununum hefði verið ráðstafað í þágu fyrirtækisins.
Í febrúar á þessu ári dæmdi Héraðsdómur Reykjaness fimm stjórnendur fyrirtækisins í skilorðsbundið fangelsi fyrir stórfelld skattalagabrot, brot á lögum um virðisaukaskatt og brot á bókhaldslögum. Þrír hlutu þá 18 mánaða skilorðsbundinn dóm, þeir Konráð Þór Lárusson, Kristján Þórisson og Róbert Páll Lárusson, og tveir 15 mánaða dóm skilorðsbundið, þau Sigurjón G. Halldórsson og Þórkatla Ragnarsdóttir. Samtals var fólkinu gert að greiða rúmar 450 milljónir kr. í sekt til ríkissjóðs. Sagði héraðsdómur að brot allra ákærðu hefðu talist stórfelld auk þess sem um samverknað hefði verið að ræða. Var refsingin skilorðsbundin vegna dráttar á meðferð málsins.
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli þrotabúsins, sem féll 11. apríl, segir að þrotabúið hafi gert þær dómkröfur að þau Sigurjón, Þórkatla og Ragnar yrðu dæmd til að geriða 303 milljónir kr. ásamt vöxtum. Málið laut einkum að skaðabótakröfu sem þrotabú Brotaafls hafði uppi gagnvart þremenningunum.
Verktakafyrirtækið Brotafl var úrskurðað gjaldþrota með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 9. nóvember 2017.
Grundvöllur kröfugerðarinnar í sakamálinu byggði einkum á þeirri forsendu að stefndu, einkum Sigurjón og Þórkatla, hefðu hlutast til um að annar maður gæfi út tilhæfulausa sölureikninga í nafni fjögurra einkahlutafélaga á hendur Brotafli. Segir í dómi héraðsdóms að greiðslurnar hafi í raun verið sýndargerningur. Um er að ræða reikninga sem voru gefnir út á milli 2012 til og með 2015.
„Fyrir liggur að stefndu hlutuðust til um að Brotafl ehf. greiddi reikninga frá fjórum einkahlutafélögum sem nánast enginn fótur var fyrir samkvæmt framangreindu, samtals að fjárhæð 303.463.880 krónur af bankareikningi Brotafls ehf., annað hvort með millifærslu eða reiðufjárúttektum. Hvað varð um þessa fjármuni er í raun óupplýst,“ segir í dómi héraðsdóms.
Þá kemur fram, að þremenningarnir, sem forsvarsmenn Brotafls, verði að bera ábyrgð á að hafa hagað rekstri félagsins með slíkum hætti að þeim sé ekki kleift að sýna fram á eða gera líklegt með áreiðanlegum gögnum eða framburðum fyrir dómi að um lögmæt útgjöld hafi verið að ræða í þágu félagsins, frekar en að þau hafi hagnýtt fjármunina í eigin þágu.
Sigurjón var því dæmdur til að greiða þrotabúinu 10,4 milljónir kr., Þórkatla samtals 61,2 milljónir og Ragnar 14,2 milljónir. Tekið er fram að kyrrsetning í fasteign Þórkötlu fyrir 61,2 milljónum kr. hafi verið staðfest. Þá stefndu gert að greiða þrotabúinu sameiginlega 3 milljónir kr. í málskostnað.