Veitingamaður svarar Twitter-níði

Myndin af matseðli Deigs sem birtist á Twitter á fimmtudag …
Myndin af matseðli Deigs sem birtist á Twitter á fimmtudag með þeim orðum að nú þyrfti Ásgeir, og þá væntanlega Jónsson seðlabankastjóri, að grípa inn í. Skjáskot/Twitter

„Við byrjuðum með þetta til­boð fá­tæka manns­ins þegar við opnuðum fyrst,“ seg­ir Markús Ingi Guðna­son, einn eig­enda baka­rís­ins Deigs við Tryggvagötu, um kurr á sam­fé­lags­miðlin­um Twitter þegar téð til­boð, kennt við fá­tæka mann­inn, kostaði orðið 1.850 krón­ur ný­lega eft­ir að hafa lengi vel kostað 1.000 krón­ur og þar á milli 1.200.

Birti Twitter-not­andi einn mynd af mat­seðli Deigs á miðlin­um á fimmtu­dag og ritaði þar við „1850 kr – Ásgeir verður að grípa inní“. Hafa ein­hverj­ir tekið þar und­ir, lýst undr­un sinni á hækk­un­inni og ein­hver með orðunum „Þetta er ógeðslegt þjóðfé­lag...“

„Við héld­um því verði um langa hríð,“ held­ur Markús áfram og á við þúsund krón­urn­ar upp­haf­legu, „líka þegar far­ald­ur­inn skall á. Þá reynd­um við allt hvað af tók til að ná fólki inn og í viðskipti við okk­ur. Jafn­vel á þess­um tíma stóð þetta verð ekki und­ir sér,“ seg­ir hann af far­ald­urs­tíma­bil­inu eft­ir­minni­lega.

Bjarg­ar sér vel á ís­lensku

Seg­ir Markús að tólf­un­um hafi fyrst kastað þegar stríðið í Úkraínu braust út snemma árs í fyrra.

„Síðan þá hef­ur starfs­manna­kostnaður hækkað um 32 pró­sent, stýri­vext­ir hafa rokið upp sem hef­ur áhrif á okk­ar vexti og okk­ar lán. Við vor­um sjálf­ir for­vitn­ir um að sjá þetta svart á hvítu svo við skoðuðum málið aðeins,“ seg­ir veit­ingamaður­inn sem ólst upp í Banda­ríkj­un­um og tal­ar ensku í þessu viðtali. „Ég get samt al­veg bjargað mér á ís­lensku yfir af­greiðslu­borðið en ég legg ekki í ein­hverj­ar flókn­ar sam­ræður á mál­inu,“ seg­ir hann frá.

Markús Ingi Guðnason segir vinsældir Deigs hafa aukist mjög í …
Markús Ingi Guðna­son seg­ir vin­sæld­ir Deigs hafa auk­ist mjög í heims­far­aldr­in­um og staður­inn þá ráðið til sín fólk auk þess sem bara rjóma­ost­ur einn og sér hafi hækkað um 78 pró­sent í verði í hækk­un­um síðustu miss­era. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

At­hug­an­ir þeirra eig­end­anna á verðhækk­un­um þeim, sem velflest þjóðfé­lög heims hafa fengið að finna á eig­in skinni síðasta árið, kveður Markús hafa leitt í ljós að hrá­efn­is­kostnaður hafi hækkað um á bil­inu 15 til 40 pró­sent.

„Bara MS [Mjólk­ur­sam­sal­an] hækkaði sín­ar vör­ur um 47 pró­sent að meðaltali. Það er til dæm­is mik­ill rjóma­ost­ur í til­boði fá­tæka manns­ins og hann hef­ur hækkað um 78 pró­sent síðan við vor­um með okk­ar fyrsta verð,“ seg­ir Markús og vís­ar enn í þúsund­kall­inn sem nú er horf­inn af mat­seðlin­um.

Hann seg­ir rétt­inn á bak við til­boðið, smurða beyglu, kleinu­hring eða annað sæta­brauð og drykk að eig­in vali, standa und­ir sér á nú­ver­andi verði, 1.850 krón­um. Vin­sæld­ir staðar­ins hafi auk­ist í veirufar­aldr­in­um, þeir eig­end­urn­ir þurft að ráða fleira starfs­fólk og sinna sín­um viðskipta­vin­um. „Við þurf­um að halda dyr­un­um hér opn­um og þetta kost­ar bara pen­inga,“ seg­ir Markús.

Þekk­ir þá list að láta Deig hef­ast

Deig geng­ur að hans sögn vel enda al­kunna að van­ur bak­ari þekk­ir þá list að láta deig hef­ast án þess að það hef­ist þó um of og falli sam­an í ekki neitt.

„Það er í raun mjög kald­hæðnis­legt hvað við uxum í far­aldr­in­um en ég held að það sé vegna þess að Íslend­ing­ar fóru að kynn­ast eig­in landi bet­ur, upp­götvuðu staðina sem þar voru og fóru að styðja við þá. Ann­ríki okk­ar jókst og þetta geng­ur mjög vel. Núna eru mjög marg­ir veit­ingastaðir í rekstri og ég held að við höf­um bara verið heppn­ir,“ seg­ir hann í hrein­skilni.

Hafa gest­ir á staðnum þá verið að fetta fing­ur út í hærra verð til­boðsins?

„Ein­hverj­ir Frakk­ar sögðu nú bara við okk­ur „kom­inn tími til að þið hækkið verðið!“,“ svar­ar Markús og hlær. Þá hafi ein­hverj­ir fasta­gest­ir haft á orði að ef til vill væri þá tíma­bært að breyta nafni til­boðsins. „Við erum að velta því fyr­ir okk­ur núna, en þetta er gam­al­gróið nafn nú orðið, fólk kem­ur hérna inn án þess að líta á mat­seðil­inn og pant­ar til­boð fá­tæka manns­ins. En það get­ur vel verið að það sé orðið tíma­bært að breyta nafn­inu,“ seg­ir Markús Ingi Guðna­son að lok­um, veit­ingamaður við Tryggvagöt­una og einn eig­enda Deigs sem vakti um­tal á lýðnet­inu fyr­ir að hækka hjá sér til­boðið.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert