Kjarnorkukafbátar Bandaríkjanna verða þjónustaðir frá Helguvík á Reykjanesskaga. Bátarnir munu sjást vel frá landi, en þeir verða að líkindum í 5-10 km fjarlægð frá strandlengjunni. Fyrsti bátur er væntanlegur mjög fljótlega og er gert ráð fyrir að fjöldi heimsókna verði allt að tíu á ári.
Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is. Auk utanríkisráðuneytisins munu Landhelgisgæsla Íslands, Geislavarnir ríkisins og ríkislögreglustjóri koma að verkefninu.
Þá mun skip Landhelgisgæslunnar m.a. sinna eftirliti þegar verið er að þjónusta kafbáta Bandaríkjanna.
Þórdís Kolbrún segir komu kafbáta hingað til lands ekki munu hafa áhrif á eftirlitsflug Atlantshafsbandalagsins (NATO) frá Keflavík. Umsvif þar hafa þó aukist síðastliðin ár og munu að líkindum gera það áfram.
Frá Keflavík fljúga kafbátaleitarvélar af gerðinni P8 Poseidon svo gott sem daglega, stundum oft á dag. Yfir Eystrasalti fylgjast þessar vélar, að því er virðist, afar náið með svæðinu í kringum Kaliníngrad í Rússlandi. Þar er veruleg hernaðarstarfsemi í landi og á sjó.
Bandaríski sjóherinn hefur yfir að ráða þrenns konar bátum, þ.e. eldflaugakafbátum (SSBN) af Ohio-gerð, árásarkafbátum (SSN) af gerðunum Los Angeles, Seawolf og Virginíu, og stýriflaugakafbátum (SSGN). Þeir voru upphaflega af Ohio-gerð en breytt á árunum 2002-2007 til að hýsa mikið magn af stýriflaugum. Þeim er einnig ætlað að flytja sérsveitarmenn og búnað þeirra til aðgerða.
Í ljósi áherslna íslenskra stjórnvalda um að hingað til lands komi ekki kjarnavopn má útiloka komu Ohio-báta. Þeir hafa það hlutverk sérstaklega að flytja kjarnasprengjur, eða 20 kjarnaflaugar af Trident-gerð.
Hinir bátarnir, þ.e. árásarkafbátar og eldflaugakafbátar, eru ekki sérstaklega hannaðir fyrir þetta hlutverk. Er því líklegast að þeir sjáist við strendur landsins á næstunni.
Bandarískir kafbátar hófu í fyrra að koma til Færeyja og hafa komið þrisvar sinnum. Í eitt skipti var um að ræða komu vegna áhafnaskipta, einu sinni vegna veikinda um borð í bátnum og einu sinni í kurteisisheimsókn.
Kjarnorkukafbátar Bandaríkjanna geta núna sótt þjónustu á Íslandi, í Færeyjum og í Noregi.