210 milljarða króna fjárfesting

Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Willum Þór Þórsson.
Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Willum Þór Þórsson. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Heildstæð áætlun um uppbyggingu innviða heilbrigðiskerfisins til ársins 2030 var kynnt af forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra í dag. Farið var yfir stöðu Landspítalaverkefnisins og áætlun um áframhaldandi fjárfestingu í innviðum heilbrigðiskerfisins. Uppbygging Landspítala er langtímaáætlun sem tekur tillit til þróunar og breyttra þarfa í heilbrigðisþjónustu. Henni er ætlað að byggja undir velsæld þjóðarinnar og felur í sér heildarfjárfestingu fyrir um 210 milljarða króna sem dreifist yfir tímabilið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnvöldum.

Fjárfestingin tvöfaldist á milli ára

Fram kemur, að uppbygging Landspítala sé mikilvægur liður í stefnu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum, en um sé að ræða einhverja umfangsmestu innviðauppbyggingu Íslandssögunnar.

Í fjármálaáætlun til næstu fimm ára er lögð rík áhersla á að halda áfram markvissri og fjármagnaðri innviðauppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Frá árinu 2010 hefur verið fjárfest í uppbyggingu Landspítala fyrir 28,7 milljarða króna, þar af fyrir 10,3 milljarða króna árið 2022. Á þessu ári er áætlað að fjárfestingin ríflega tvöfaldist á milli ára og nemi 21,5 milljörðum króna.

Settur var á fót stýrihópur um nýjan Landspítala árið 2020 sem ber ábyrgð á samhæfingu og stjórn meginþátta verkefnisins. Hópnum er ætlað að tryggja skýra forgangsröðun og góða nýtingu fjármuna. Hefur stýrihópurinn nú birt fyrstu áfangaskýrslu sína sem byggir á upplýsingum frá NLSH ohf. um heildaráætlun verkefnisins á tímabilinu 2010-2030, segir í tilkynningu. 

Fullfjármagnaður fyrsti áfangi

Fyrsti áfangi uppbyggingarinnar er fullfjármagnaður og vel á veg kominn. Áætlað er að honum ljúki að mestu leyti innan tímaramma nýrrar fjármálaáætlunar. Nýtt sjúkrahótel var fyrsta verkefnið sem lokið var við en það var tekið í notkun vorið 2019. Öðrum verkefnum miðar vel áfram og nýjar lykilbyggingar Landspítala rísa nú hratt. Þar má helst nefna svokallaðan meðferðarkjarna og rannsóknahús sem munu gjörbylta aðstöðu Landspítala til hins betra. Fyrsti áfangi felur einnig í sér nýbyggingu við endurhæfingardeildina á Grensás og umfangsmikla fjárfestingu í margs konar tækjum, búnaði og stoðþjónustu, segir enn fremur. 

Annar áfangi hafinn

Annar áfangi verkefnisins felur í sér uppbyggingu dag- og göngudeilda, legudeilda og annarra mikilvægra þjónustueininga og innviða, sem munu nýtast öllu heilbrigðiskerfinu. Einnig er unnið að því að meta nýtingu eldri bygginga og þörf á nýjum byggingum. Við þá vinnu verður horft til þarfa samfélagsins, starfsfólks og framtíðarhlutverks Landspítala. Þá er jafnframt unnið að skipulagi á fjölmörgum mikilvægum þjónustueiningum, meðal annars geð-, krabbameins- og öldrunarþjónustu. Nú þegar hefur verkefnahópur á vegum heilbrigðisráðuneytisins skilað af sér skýrslu um framtíðarsýn húsnæðis fyrir geðþjónustu Landspítala. Á grunni hennar hefur verið tekin ákvörðun um uppbyggingu nýrrar geðheilbrigðiseiningar sem mun koma í stað núverandi húsnæðis geðþjónustu. Kostnaður við þessa uppbyggingu er áætlaður um 13 milljarða króna, segir jafnframt. 

Nánar er skýrt hvernig fjárfestingaráform beggja áfanga raðast niður í …
Nánar er skýrt hvernig fjárfestingaráform beggja áfanga raðast niður í meðfylgjandi töflu og skýrslu stýrihópsins.

Nánari umfjöllun er að finna hér. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka