Árekstur varð nú rétt fyrir klukkan eitt á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins voru allavega tveir bílar sem skullu saman, en blaðamaður mbl.is sem var á vettvangi taldi að fleiri bílar hefðu einnig lent í árekstrinum, eða allt að fjórir.
Sendir voru tveir sjúkrabílar á vettvang ásamt dælubíls, en samkvæmt slökkviliðinu var lítið að gera fyrir dælubílinn og virðist að svo stöddu ekki líta út fyrir að um alvarlegt slys hafi verið að ræða.
Enginn hafði verið fluttur á sjúkrahús þegar mbl.is náði á slökkviliðið.
Talsverðar tafir eru á umferð vegna slyssins.