Aukning á fjármagni til háskólanna

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra segir mikið ánægjuefni …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra segir mikið ánægjuefni að verkefnið Samstarf háskóla haldi áfram. mbl.is/Kristinn Magnússon

Auka á fjármagn til háskólastigsins næstu fimm árin upp á 6 milljarða króna samkvæmt nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu inni á vef Stjórnarráðsins

Ný sókn fyrir háskólastigið

Þá kynnti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, áherslur fjármálaáætlunar í málaflokkum ráðuneytisins á Alþingi í dag. Hún segir hana fagnaðarefni fyrir háskólastigið. Hún hafi bent á að í kjölfar efnahagshruns hafi fjárveitingar til háskóla verið skornar niður og vísbendingar séu um að þróunin sé farin að bitna á gæðum háskólanáms.

„Ég hef sagt að við það verði ekki unað enda eru alþjóðlega samkeppnishæfir háskólar lykilinn að auknum hagvexti, bættum lífskjörum auk þess sem háskólarnir gegna lykilhlutverki fyrir upplýsta samfélagsumræðu. Fjölgun háskólanema er líka forsenda þess að við getum mannað velferðarþjónustuna með þeim hætti af sómi sé af. Á tímum heimsfaraldurs voru fjárveitingar til háskólanna tímabundið auknar en með nýrri fjármálaáætlun er Covid aukningin gerð varanleg og nemur hún um tveimur og hálfum milljarði. Þar að auki er strax á næsta ári settur inn um einn milljarður til styrkingar háskólanáms sem er mikið ánægjuefni. Segja má að þessi fjármálaáætlun boði nýja sókn fyrir háskólastigið. Í þeirri sókn legg ég áherslu á að auknar fjárveitingar fari í að bæta gæði háskólanáms og rannsókna og til nýrra verkefna í háskólunum en ekki í óbreytta starfsemi.“

Gæði náms aukast

Auknar fjárveitingar næstu ára tryggja að á næstu mánuðum verður unnt að prufukeyra nýtt reiknilíkan háskóla sem verður haft til hliðsjónar við fjárlagavinnu ársins 2024. Líkanið mun í auknum mæli styðja við aukin gæði náms en einnig mun það stuðla að stöðugri fjárveitingum, auka gagnsæi, efla rannsóknir og bæta fjármögnun náms en í því sambandi má t.d. nefna félags- og hugvísindi.

Lesa má tilkynninguna í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert