„Við höfum litið svo á að það sé pólitískt og samfélagslegt viðfangsefni hvernig við ætlum að leysa þetta verkefni,“ sagði Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrverandi alþingismaður, sem á sæti í starfshópi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um nýtingu og framtíð vindorku á Íslandi en hópurinn kynnir nú áfangaskýrslu sína á Hótel Nordica.
Rifjaði Kolbeinn upp aðgerðaáætlun í orkuskiptum sem samþykkt var á Alþingi árið 2017 og rík samstaða hafi verið um á þinginu. Þá benti hann á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum frá 2020 sem senn yrði uppfærð.
„Við erum með það markmið að draga úr losun um 55 prósent árið 2030 og sé árið 2040 í næstu viku þá er [2030] bara á morgun, við þurfum að fara að ákveða núna hvernig við ætlum að ná þessu,“ hélt Kolbeinn áfram og benti á að hægt gengi á þeirri vegferð að koma öllu jarðefnaeldsneyti úr notkun árið 2040. Væri notkun slíks eldsneytis þvert á móti að aukast nú um stundir.
„Það er ekki bara þannig að einn daginn slökkvum við á einu kerfi og kveikjum á hinu,“ sagði Kolbeinn og benti á að betur mætti ef duga skyldi í þessum efnum. Skoða þyrfti orkukerfið í heild sinni með það fyrir augum hvernig unnt væri að forgangsraða því í þágu loftslagsmarkmiða.
Komið væri inn á ýmsar leiðir að þeirri forgangsröðun í skýrslu hópsins, orkuskipti og orkuöflun væru langt í frá eina svarið við vandamálum á sviði loftslagsmála. „Það er engin töfralausn í þessum málum, við þurfum að gera allt,“ sagði Kolbeinn í erindi sínu.
Sagði hann umræðuna oft vera þannig að Ísland væri búið með sín orkuskipti. „En það er auðvitað ekki þannig á meðan við erum að nota eina og hálfa milljón tonna af jarðefnaeldsneyti á ári,“ benti hann á og sagði íslensk stjórnvöld hafa hreyft því að vindorka yrði þriðja stoðin í orkukerfinu við hlið vatnsafls og jarðvarma. Með því væri fjölbreytnin í orkukerfinu aukin en kerfið á Íslandi væri nokkuð einsleitt samanborið við önnur lönd.
„Viðfangsefnið snýst ekki bara um það að ákveða hvernig fyrirkomulag virkjunar vindorku á að vera, það er markmið stjórnvalda að vindorka verði hluti af lausninni þegar kemur að loftslagsmálum,“ sagði Kolbeinn. Í stjórnarsáttmálanum væri kveðið á um að finna ætti leiðir til að einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu grænnar orku. Skýrsla starfshópsins væri liður í að uppfylla það ætlunarverk.
Nú væri Ísland í þeirri stöðu að geta ákveðið fyrir fram hvernig hentugast væri að byggja upp þennan geira, að því leyti fælist viss kostur við að vera áratugum á eftir öðrum löndum eins og ráðherra nefndi í opnunarávarpi sínu. „Við höfum tækifæri til að skapa heildarsýn í samspili við orkugeirann almennt, um hvernig við nýtum þennan kost inn í okkar stóru samfélagslegu markmið í loftslagsmálum og við höfum tækifæri til að byggja upp kerfið í kringum það fyrir fram,“ sagði hann.
Legði stjórnarsáttmálinn ríka áherslu á að starfið fram undan yrði unnið með sáttina að leiðarljósi, Íslendingar hefðu skoðanir á orkumálum og sjónarmiðin væru mörg. „Við höfum vonast til þess að þessi skýrsla geti verið innlegg í umræðuna um hvernig við sem samfélag ætlum að ná þessum markmiðum,“ sagði Kolbeinn og kvaðst hafa velt fyrir sér hvort rétt væri að stofna til þjóðarsamtals um hvernig ætlunin væri að ná markmiðum í loftslagsmálum árið 2040.
„Við erum á þeim stað núna að það er ekki lengur hægt að skila auðu, við verðum að svara því hvernig við ætlum að ná markmiðunum. Það er okkar vilji að sem breiðust sátt skapist um hagnýtingu vindorku með þessari orkuumræðu sem verður krefjandi,“ sagði Kolbeinn og kvaðst að lokum stoltur af því að fá að taka þátt í þeirri umræðu.