Fulltrúar björgunarfyrirtækisins SMIT Salvage komu til landsins síðdegis og vinna nú að aðgerðaáætlun, að sögn Garðars Jóhannssonar hjá Nesskipum, þjónustuaðila flutningaskipsins, Wilson Skaw sem setið hefur pikkfast á Húnaflóa síðan í gær.
Garðar segir aðgerðaráætlun SMIT innihalda útreikninga og mat á því hvort og hvernig best verði staðið að affermingu skipsins og þá hvernig því verður bjargað af strandstað. Áætlunin verður lögð fyrir viðbragðsaðila og eftirlitsstofnanir þegar hún liggur fyrir en búast má við því strax á morgun.
Engin olíuleiki er sjáanlegur frá skipinu en færanlegri mengunarvarnargirðingu hefur í varúðarskyni verið komið fyrir í kringum það.