Höskuldur Daði Magnússon
„Það ætti að vera hægt að vinna þetta allt í sumar,“ segir Björn Ingimarsson sveitarstjóri Múlaþings um framkvæmdir við Baug Bjólfs, nýjan og glæsilegan útsýnispall sem á að koma upp á Seyðisfirði. Verkefnið hlaut hæsta styrkinn í úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamanna þetta árið, 158 milljónir króna.
Á dögunum var tilkynnt að 28 verkefni hlytu styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða í ár. Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra sagði við það tækifæri að umrædd verkefni sneru að fjölbreyttri uppbyggingu um land allt. „Það er sérstaklega ánægjulegt að 20 af 28 verkefnum sem hljóta styrk eru skilgreind á áfangastaðaáætlun innan síns svæðis,“ sagði ráðherra en 550 milljónum var úthlutað að þessu sinni.
Margir voru um hituna því 101 umsókn barst um styrki upp á rúma tvo milljarða króna en heildarfjárhæð umræddra verkefna er upp á 6,4 milljarða króna. Af innsendum umsóknum voru 24 ekki taldar uppfylla formkröfur Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða eða falla utan verksviðs hans.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.