Rændu verslun vopnaðir hamri og kúbeini

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilkynnt var um vopnað rán í hverfi 201 í Kópavogi. Tveir einstaklingar ruddust inn í verslun vopnaðir hamri og kúbeini og höfðu með sér á brott peninga úr peningakassanum. Starfsmaður var beittur ofbeldi og haldið niðri. Hann hlaut áverka í andliti eftir árásina. Málið er í rannsókn hjá lögreglu.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Tilkynnt var um annað vopnað rán við íþróttahús í hverfi 108. Sá sem tilkynnti um málið sagði að einstaklingur hefði komið upp að sér, tekið sig hálstaki og sagst vera með hníf. Hann tók svo vespu af honum og ók á brott. Málið er í rannsókn hjá lögreglu.

Hlaupandi með hníf á eftir ungum dreng 

Lögreglunni barst tilkynning um tvo menn með lambhúshettur og hníf hlaupandi á eftir ungum dreng. Þeir náðu honum ekki. Þegar lögreglan kom á vettvang var ekkert að sjá og enginn tilkynnti að hafa lent í þessu sem tilkynnt var um.

Meðvitundarlaus eftir hópslagsmál

Tilkynnt var um meðvitundarlausan einstakling eftir hópslagsmál í hverfi 220 í Hafnarfirði. Einn var fluttur á slysadeild til frekari aðhlynningar. Hann var með meðvitund en þó með áverka.

Lögreglunni barst tilkynning um mikil læti frá einstaklingum á mótorhjólum í hverfi 105 í Reykjavík. Stuttu síðar var tilkynnt um hópslagsmál þar sem nokkrir væru að lemja einn. Lögregla fór á vettvang en þar fannst enginn.

Gólandi í strætóskýli

Einnig barst tilkynning um þjófnað í verslun í hverfi 111 í Breiðholti. Málið var afgreitt á vettvangi.

Jafnframt var tilkynnt um gólandi mann í strætóskýli í hverfi 203 í Kópavogi. Ekkert athugavert var að gerast á vettvangi þegar lögreglan kom þangað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert