Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, velti því upp í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag hvort kennitölum ráðherra í ríkisstjórn hafi verið flett upp eða annarra einstaklinga sem stjórnvöld telji ástæðu til að haft sé sérstakt eftirlit með vegna fjárhagslegra hagsmuna.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra gaf ekki skýrt svar við spurningu þingmannsins og virtist ekki hafa kynnt sér málið til hlítar.
„Þetta mál hafði ekki komið inn á mitt borð þegar um það var fjallað í fréttum,“ sagði Willum Þór í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.
Bergþór spurði ráðherra hvort honum þyki eðlilegt að Persónuvernd, landlæknisembættið og Lyfjastofnun hafi vitað jafn lengi og raunin virðist vera af gallanum í kerfinu án þess að aðhafast.
Ráðherra sagði fulla ástæða fyrir Persónuvernd að gera athugasemdir við málið og fulla ástæðu til að kanna málið og hvað það væri sem þurfi að gera til þess hreinlega að koma í veg fyrir þessa glufu. Hann sagðist ekki geta ímyndað sér annað en að það væri hægt. Hann sagðist strax hafa lagt til í ráðuneytinu að senda þá fyrirspurn á landlækni og hvað þurfi til.
Athylgi vakti að ráðherra sagði að hvergi hafi komið fram að einhver misnotkun hafi átt sér stað með viðkvæmar upplýsingar en sagði þó ekki eðlilegt að kerfið væri með þessum hætti.
Bergþór sagði þá að hluti fréttanna í Morgunblaðinu fjalli einmitt um að upplýsingum hafi verið dreift til þriðja aðila sem geti varla talist annað en misnotkun á þeirri stöðu sem viðkomandi starfsmaður hefur verið í.
Ráðherra sagði þá mjög alvarlegt ef það er staðan að þessum upplýsingum hafi verið dreift til þriðja aðila.
„Það er þá rétt að Persónuvernd rannsaki það mál til hlítar, í hvaða tilgangi, og beiti þeim úrræðum sem stofnunin hefur til að bregðast við því,“ sagði Willum í dag.
Ráðherra sagði fulla ástæðu fyrir heilbrigðisráðuneytið að fylgja málinu eftir, bæði með embætti landlæknis og Persónuvernd, og koma í veg fyrir að hlutirnir séu með þessum hætti og sagðist hann taka undir með Bergþóri.