Sumir komust út af sjálfsdáðum

Rúta valt í Húseyjarkvísl í dag. Sex manns voru flutt …
Rúta valt í Húseyjarkvísl í dag. Sex manns voru flutt með sjúkrabíl. Ljósmynd/Landsbjörg

Sex voru flutt með sjúkrabíl á sjúkrahúsið á Akureyri, eftir að rúta valt ofan í ána Húseyjarkvísl í dag. Fimmtán manns voru um borð í rútunni. 

Restin af farþegunum var flutt á sjúkrahúsið með björgunarsveitarbílum, þar sem allir gengust undir læknisskoðun. Engin er í lífshættu að sögn Höskuldar B. Erlingssonar, aðalvarðstjóra lögreglunnar á Norðurlandi, en um átta manns hlutu meiðsl af einhverju tagi. 

„Það eru einhver beinbrot og tognanir. Sem vissulega geta verið alvarleg í sjálfu sér, en alla vega veit ég ekki til þess að neinn sé í lífshættu“ sagði Höskuldur.

Farþegar rútunnar voru ferðamenn, mestmegnis frá Bandaríkjunum, en þar að auki voru bílstjóri og leiðsögumaður um borð. Fjölda­hjálp­ar­stöð var opnuð í flugbjörgunarstöðinni í  Varma­hlíð og fyrstahjálp veitt þar. Höskuldur segir fólkið vissulega hafa verið skelkað og að áfallahjálp hafi verið veitt á staðnum.

Rútan enn í ánni

Ekki er vitað hver tildrög veltunnar voru en Höskuldur segir rannsókn málsins í gangi, en rannsóknarnefnd Samgöngustofu er væntanleg til að rannsaka vettvang. 

Rútan er enn í ánni að sögn Höskuldar, en unnið er að því að ná henni upp úr. Hann segir ána djúpa á köflum, en hún hafi ekki verið mjög djúp þar sem rútan féll. Rútan hafi lent á hægri hlið og áin hafi náð upp á miðja hlið rútunnar.

Hann segir að ekki hafi þurft að brjóta rúður til að ná fólki út og að sumir hafi náð að koma sér út sjálfir, áður en viðbragðsaðilar hafi komið á vettvang.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert