Vilja 5-6 þúsund fermetra undir 180 starfsmenn

Mygla fannst í húsnæði við Háaleitisbraut.
Mygla fannst í húsnæði við Háaleitisbraut. Ljósmynd/Landsvirkjun

„Við erum að vega það og meta hvert umfang viðgerða þarf að vera á móti öðrum kostum sem eru í stöðunni,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar en ríkisfyrirtækið skoðar nú flutning eða uppbyggingu nýs húsnæðis vegna myglu sem upp kom í núverandi húsnæði fyrirtækisins við Háaleitisbraut. 

Landsvirkjun auglýsti í Morgunblaðinu á laugardag eftir upplýsingum um það hvort húsnæði eða lóðir væru á lausu til þess að hýsa starfsemina. Í auglýsingunni segir að höfuðstöðvar þurfi að vera 5-6 þúsund fermetrar á 2-4 hæðum og að hægt verði að mæta breytilegum þörfum fyrirtækisins til lengri tíma. Hjá fyrirtækinu starfa 180 starfsmenn og ef miðað er við þessar upplýsingar er óskað eftir um 30 fermetrum fyrir hvern starfsmann að meðaltali.

Landsvirkjun auglýsti eftir nýju húsnæði.
Landsvirkjun auglýsti eftir nýju húsnæði.

Vilja gera stjórnstöð í húsinu 

„Að hluta til þurfum við allt þetta rými því við viljum byggja stjórnstöð þar sem allar virkjanir eru vaktaðar. Þetta er ekki ósvipuð stærð ef miðað er við það sem við erum í dag,“ segir Hörður.  

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurður um þann möguleika að byggja nýtt hús á verðbólgutímum þá segir Hörður ótímabært að tjá sig um það að svo stöddu. 

„Við erum bara að kanna hvort það sé húsnæði á lausu, eða hvort hægt sé að finna húsnæði sem enn er að byggja. Samhliða því erum við að skoða ástandið á okkar húsi. Það er ekki búið að taka neina ákvörðun ennþá,“ segir Hörður.  

Hörður segir að nánari greining á umfangi þeirra skemmda sem myglan hefur valdið á húsinu við Háaleitisbraut á hendi sjálfstæðra verktaka. Heilbrigðis- eða vinnueftirlitið hafi ekki verið kallað til. 

Starfsmenn í Grósku og á Hafnartorgi 

Hann segir að 140 starfsmenn séu ekki lengur í húsinu við Háaleitisbraut vegna myglunnar. Helmingur þeirra er í húsnæði Grósku og helmingur í Hafnartorgi. Enn eru 30 í starfi í húsinu á þeim hæðum sem ekki hefur orðið myglu vart.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert