Kjaradeila ellefu félaga í BSRB og samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) er í hörðum hnút hjá ríkissáttasemjara.
Ekki er deilt um almennar launabreytingar í skammtímasamningi eins og gerðir hafa verið á vinnumarkaðinum, heldur er kominn upp mikill ágreiningur vegna launamunar á milli félagsmanna í BSRB-félögum og í aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins (SGS), sem vinna sambærileg störf hjá sveitarfélögunum.
BSRB krefst þess að launamunur vegna fyrstu þriggja mánaða ársins 2023 verði leiðréttur en hann er metinn á 128 þús. kr. að meðaltali auk launatengdra gjalda en því hefur SNS alfarið hafnað.
Samningar SGS-félaganna við sveitarfélögin voru gerðir í mars 2020 og gilda út september nk. Þeir fela í sér hækkun með viðbótarlaunatöflu, sem kom til framkvæmda um síðustu áramót. Samningar BSRB-félaganna sem gerðir voru á sama tíma fyrir starfsmenn þeirra runnu hins vegar út 31. mars sl.
Forsvarsmenn SNS halda því fram að BSRB-félögunum hafi staðið til boða í mars 2020 að gera sams konar samning og gerður var við SGS með viðbótarlaunatöflunni og gildistíma út september 2023. Bæjarstarfsmannafélögin í BSRB hafi hafnað því og viljað semja til 31. mars.
SNS segir að sveitarfélögin hafi að fullu efnt samninga sem gerðir voru. Ekki komi til greina að verða við þeirri kröfu að sveitarfélögin leiðrétti ákvörðun stéttarfélaganna í BSRB á sínum tíma um að hafna þessum samningi sem þeim hafi þá staðið til boða.
Alvarleg staða er því komin upp sem tekin var fyrir í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga sl. mánudag.
Umfjöllunina í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu í dag.