Búið er að ná rútunni upp, sem valt ofan í Húseyjarkvísl í gær. Friðrik Hreinsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, staðfesti það við mbl.is.
„Verktakar náðu henni upp úr vatninu eftir að rannsókn lauk á vettvangi.“
Friðrik segir að tildrög slyssins séu ekki ljós og að rannsókn muni leiða það í ljós.
„Rannsóknarnefnd samgönguslysa lauk störfum í gærkvöldi en það eru ekki komnar niðurstöður úr þeirri rannsókn.“
Það fóru sjö sjúklingar í sjúkrabíl af slysstaðnum að sögn Friðriks en 13 farþegar voru í rútunni ásamt ökumanni og fararstjóra.
Farþegar rútunnar voru ferðamenn, mestmegnis frá Bandaríkjunum en ökumaður og fararstjóri eru Íslendingar.
Fjöldahjálparstöð var opnuð í flugbjörgunarstöðinni í Varmahlíð og fyrsta hjálp veitt þar.