Edda, nýtt hús Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Háskóla Íslands, sem hafði gengið undir nafninu „Hús íslenskunnar“, var vígt í gær. Af því tilefni verður húsið opnað almenningi í dag, sumardaginn fyrsta, milli klukkan 10 og 16.
Þá geta gestir skoðað húsið áður en flutt er inn í það og starfsemi hefst. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá þar sem íslensk tunga verður í aðalhlutverki. Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.
Húsið er ætlað sem miðstöð rannsókna og kennslu í íslenskum fræðum: tungu, bókmenntum og sögu. Þar verða jafnframt varðveitt frumgögn um íslenska menningu, þ.e. handrit, skjöl, orða- og nafnfræðisöfn og þjóðfræðasöfn.
Í byggingunni eru ýmis sérhönnuð rými, svo sem fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á fornum íslenskum skinnhandritum, vinnustofur kennara og fræðimanna, lesaðstaða fyrir nemendur, fyrirlestra- og kennslusalir og bókasafn með lesaðstöðu.