Færri fyrstu kaupendur fá íbúðalán

Fleiri fyrstu kaupendur falla á greiðslumati en áður eftir að …
Fleiri fyrstu kaupendur falla á greiðslumati en áður eftir að reglur voru hertar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Nú eru mun fleiri fyrstu kaupendur að falla á greiðslumati, enda gilda orðið strangari reglur um lán hjá bönkum og lífeyrissjóðum. Fasteignaverð hefur auðvitað hækkað mikið og það þarf því meira eigin fé en áður. Þetta hefur mikil áhrif á markaðinn enda eru keðjur í fasteignaviðskiptum,“ segir Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, um stöðuna.

Seðlabankinn hefur hækkað vexti tólf sinnum í röð frá maí 2021, úr 0,75% í 7,5%. Vextirnir náðu lágmarki haustið 2020 eða hálfu ári eftir að farsóttin hófst. Grétar segir hærri vexti og hærra fasteignaverð hafa mikil áhrif á greiðslumat.

Sé að hámarki 40% af tekjum

„Reglur sem Seðlabankinn hefur sett hafa hert mjög að fyrstu kaupendum. Það er margt sem kemur til, meðal annars að veðsetningarhlutfall hefur verið lækkað gagnvart þeim og það má nú ekki fara yfir 85% af markaðsverði fasteignar. Þá má greiðslubyrði húsnæðislána ekki fara yfir 40% af mánaðarlegum ráðstöfunartekjum. Þannig að það er búið að þrengja öll skilyrði fyrir fyrstu kaupendur á markaði.“

Stjórn Félags fasteignasala fundaði í síðustu viku og ræddi þá meðal annars stöðu fyrstu kaupenda. Grétar segir stöðu þessa hóps hafa breyst mikið á síðustu misserum en vextir voru sögulega lágir í farsóttinni og mikið líf á fasteignamarkaði.

„Vegna þessa hefur Félag fasteignasala áhyggjur af mörgu ungu fólki sem er fast á leigumarkaði og kemst illa út af honum. Fjármálalæsi margs ungs fólks er mjög gott. Unga fólkið er meðvitað um strangar lánareglur og er því ekki að bjóða í fasteignir ef það á ekki möguleika, þótt alltaf sé nokkuð um að boðið sé í fasteignir með fyrirvara um að standast greiðslumat sem gengur svo ekki upp.

Slíkt getur haft áhrif á keðjur fasteignaviðskipta en öll keðjan getur verið í uppnámi ef viðskipti innan hennar falla. Þetta er vandamál í dag en þekktist vart síðastliðin ár þegar eignir seldust hratt og aðgengi að lánum var mjög gott.“

Umfjöllunina í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka