Hjálpræðisherinn í Reykjavík fagnar komu sumarsins og blæs til hátíðarhalda í dag, sumardaginn fyrsta, milli kl. 13-16 í nýja húsnæðinu við Suðurlandsbraut 72.
Sumarhátíðin er ætluð öllum og alls konar afþreying verður í boði eins og hoppukastali, andlitsmálning, leikvöllur, körfuboltavöllur, þythokkí, borðtennis svo aðeins nokkur atriði séu nefnd.
Heiða Björk Ingvarsdóttir, starfsmaður hjá Hjálpræðishernum, segir að hátíðin hafi verið með þessu sniði undanfarin þrjú ár.
„Áður voru sumarkvöldvökur en núna höldum við upp á sumarkomuna með allri fjölskyldunni og það hefur verið mjög vel sótt undanfarin ár og mikið líf og fjör. Það fóru allavega 750 pylsur í fyrra.“
Í vetur hefur starf Hjálpræðishersins aukist umtalsvert og skjólstæðingar sem leita sér aðstoðar hafa aldrei verið fleiri. Hjálpræðisherinn hefur verið með opin hús þar sem jaðarsettir hópar vegna vímuefnavanda, fátæktar eða flótta hafa getað fengið endurgjaldslausar máltíðir. Allur ágóði af sölu veitinga fer í velferðarsjóð Hjálpræðishersins til að styðja við starfsemina.