Á sumardaginn fyrsta er við hæfi fyrir kylfinga að huga að golfsumrinu og hvenær vellirnir opna eftir veturinn.
Eins og gefur að skilja er misjafnt hvenær vellirnir eru tilbúnir til notkunar eftir veturinn. Fer það eftir tíðarfari, staðsetningu þeirra, undirlagi og fleiru.
Nokkrir vellir á Íslandi eru búnir að opna inn á sumarflatir eins og það er kallað. Eru því í raun komnir í sumarbúninginn þótt grasið eigi að sjálfsögðu eftir að grænka með betri tíð. Sem dæmi er opið inn á sumarflatir í Þorlákshöfn, Sandgerði, Þverá og á Vatnsleysuströnd.
Á vef Golfsambandsins er ágætt yfirlit yfir hvaða vellir eru opnir eða hvenær stefnt er að opnun. Allt eftir því hversu duglegir golfklúbbarnir eru að veita upplýsingar um stöðuna en þarna er um að ræða lifandi skjal eins og það er kallað sem lifir næstu vikurnar.