Hvergi vont veður á sumardaginn fyrsta

Hlýjast var á norðausturlandi og var hitinn sambærilegur á Akureyri, …
Hlýjast var á norðausturlandi og var hitinn sambærilegur á Akureyri, Húsavík og í Ásbyrgi. Hitinn mun þó snögglækka í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það má segja að það hafi verið ágætis veður um allt land,“ segir Birgir Örn Höskuldsson veðurfræðingur um veðrið í dag. „Hlýjast var á norðausturhluta landsins og þar fór hiti sums staðar í 17 gráður og var sólríkt,“ segir hann og bætir við að sambærilegt veður hafi verið á Akureyri, Húsavík og í Ásbyrgi.

Ágætis veður á Suðurlandi

„Það var líka ágætis veður hér fyrir sunnan. Ekki kannski jafn mikil blíða en hitinn skreið alveg upp í 10-12 gráður núna seinnipartinn í dag,“ segir Birgir og segir hvergi hafa verið vont veður, en það hafi blásið aðeins meira á norðvesturhluta landsins og hiti verið minni í dag.“

Snöggkólnar í nótt

Hann segir þó ekki blíðuna halda áfram. „Það mun snöggkólna í nótt og í fyrramálið fyrir norðan og hiti gæti farið að frostmarki og jafnvel orðið lítils háttar snjókoma. Það mun verða sæmilega hlýtt sunnan megin á landinu en svo heldur svalara á laugardaginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert