Rétt fyrir klukkan tvö í dag var karlmaður handtekinn við að aka bifreið sinni undir áhrifum fíkniefna í miðborg Reykjavíkur. Í bifreiðinni var barn farþegi. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Barnavernd var gert viðvart um atvikið en málefni karlmannsins var unnið samkvæmt því verklagi sem unnið er eftir vegna fíkniefnaaksturs.
Annar ökumaður var handtekinn laust fyrir klukkan hálf tólf í morgun eftir að hann ók bifreið sinni aftan á aðra á Vesturlandsvegi við Bauhaus. Ökumaðurinn reyndist vera undir áhrifum áfengis og var því handtekinn. Honum var sleppt úr haldi síðdegis að skýrslutökum loknum. Báðar bifreiðarnar skemmdust talsvert en ekki urðu slys á fólki.
Klukkan rétt rúmlega hálf fjögur í dag var bifreið ekið á vegrið á Laugavegi. Engin slys urðu á fólki en skemmdir urðu á umferðarmannvirkjum.