Söngvarinn Pétur Örn Guðmundsson, sem er stundum kallaður Pétur Jesú, segist sjá eftir sambandi sem hann átti við yngri manneskju. Hann biðst afsökunar á að hafa sært viðkomandi.
Fyrir rúmu ári síðan var Pétri vikið úr tveimur hljómsveitum. Leiða má líkur að því að honum hafi verið vikið úr hljómsveitunum vegna frásagnar söngkonunnar Elísabetar Ormslev, sem birtist í Fréttablaðinu deginum áður, um samband sitt við mikið eldri frægan tónlistarmann.
Í viðtalinu kom fram að „samband“ þeirra hafi hafist þegar hún var barnung.
Í dag birti Pétur afsökunarbeiðni á Facebook. Þar biðst hann afsökunar á sambandi sínu við yngri manneskju.
„Fyrir rétt rúmum þrettán árum kynnist ég ungri manneskju og náðum við vel saman og hófum að hittast. Það var rangt og dómgreindarleysi af minni hálfu og ber ég einn ábyrgð á þeirri ákvörðun.
Samskipti okkar stóðu yfir í meira eða minna 11 ár með mislöngum stoppum og hléum. Ég sé eftir þessu og harma það mjög hafa sært viðkomandi. Það var aldrei ætlun mín og biðst ég innilegrar afsökunar á því,“ skrifar Pétur Örn á Facebook.
Í Facebook-færslu sinni greinir Pétur frá því að undanfarið ár hafi hann staðið í sjálfsskoðun og leitað sér aðstoðar. Kveðst hann ætla að halda áfram að vinna í sjálfum sér.
„Það er vinna sem ég mun vinna til æviloka,“ skrifar Pétur
Ég hef undanfarið ár staðið í mikilli sjálfsskoðun og leitað aðstoðar fagmanneskja í að vinna í sjálfum mér með hjálp...
Posted by Pétur Örn Guðmundsson on Fimmtudagur, 20. apríl 2023