Yfirheyrslur yfir Sverri Þór Gunnarssyni sem handtekinn var á heimili sínu í borginni Rio de Janeiro í Brasilíu á dögunum eru hafnar. Sverrir hefur neitað að svara spurningum brasilísku alríkislögreglunnar. Þá er talið líklegt að hann verði ákærður innan þess fimmtán daga tímaramma sem gefinn er þar í landi til þess að ákæra eftir handtöku.
Þetta staðfestir Thiago Giavarotti, yfirlögregluþjónn innan brasilísku alríkislögreglunnar, í samtali við mbl.is. Hann segir brasilísku lögregluna hafa sterk sönnunargögn undir höndum. Verði Sverrir ákærður sé líklegt að það verði fyrir fíkniefnasmygl og peningaþvætti.
Sverrir var handtekinn í umfangsmiklum aðgerðum brasilísku alríkislögreglunnar sem framkvæmdar voru víða um landið þann 12. apríl síðastliðinn. Aðgerðirnar voru kallaðar „Operation Match Point“ og tóku meira en tvö hundruð lögregluþjónar þátt, þar á meðal frá Íslandi og Ítalíu.
Í dag eru átta dagar liðnir frá því að Sverrir var handtekinn.
Í aðgerðunum lagði lögregla hald á 65 kíló af kókaíni, 225 kíló af kannabisefnum og 57 fasteignir auk ökutækja og skipa ásamt því að loka fyrir bankareikninga 43 einstaklinga.
Lögreglan telur verðmæti eignanna sem lagt var hald á geta numið um 150 milljóna brasilísks ríal eða um 4,2 milljörðum íslenskra króna.
Greint hefur verið frá því að Match Point-aðgerðin sé talin vera af fremur umfangsmiklum toga og Giavarotti staðfestir það. Hann tekur þó fram að aðgerðir sem þessar séu framkvæmdar tvisvar til þrisvar í viku í Brasilíu.
Giavarotti segir enga aðra Íslendinga en Sverri vera til rannsóknar vegna málsins, það hafi þó ekki alltaf verið raunin. Annar Íslendingur hafi verið til rannsóknar en hann hafi látið lífið úr krabbameini fyrr á þessu ári á meðan að rannsókn stóð yfir.
Árið 2012 hlaut Sverrir tuttugu og tveggja ára dóm í Brasilíu fyrir innflutning á 46 þúsund e-töflum til landsins. Vegna fyrri dóms er hann enn á skilorði og segir Giavarotti þá staðreynd vissulega geta haft áhrif á þyngd dómsins sem Sverrir myndi hljóta yrði hann sakfelldur í þetta sinn. Engin uppskrift sé þó til í þessum efnum og því erfitt að segja til um hversu mikil áhrif fyrra málið muni hafa.
Ákærurnar sem Sverrir eigi nú yfir höfði sér hafi misstóran refsiramma. Fíkniefnasmygl beri með sér lágmark fimm ára og hámark tuttugu ára fangelsisvist en peningaþvætti lágmark þrjú og hámark tíu ár.
Giavarotti segir leiðir Sverris og alríkislögreglunnar hafa legið saman vegna annarrar rannsóknar.
„Það var aðgerð í Florianapolis þar sem verið var að rannsaka brasilískan glæpamann. Rannsóknin hófst árið 2020 en var svo sett á pásu í nokkra mánuði vegna faraldursins. Eftir nokkra skoðun varð alríkislögreglan vör við [Sverri] Gunnarsson. Glæpir hans voru rannsakaðir hér og af því að við vissum að hann væri viðriðinn við glæpi sem framdir voru á Íslandi höfðum við samband við [íslensk] yfirvöld,“ segir Giavarotti.
Brasilískir miðlar greindu frá því að starfsemi glæpasamtakanna hafi talist óvenjuleg vegna þess að þau selji margar tegundir fíkniefna í stórum og smáum skömmtum auk þess sem þau sjái einnig um inn- og útflutning efnanna. Þá nýti samtökin báta í flutningi á kannabisefnum en leiðirnar sem hafi verið notaðar til flutnings hafi meðal annars farið með ströndum Afríku.
Giavarotti segir Sverri og brasilískan karlmann hafa stjórnað starfseminni í sameiningu.
„Þeir voru í viðskiptum saman. Stundum gat annar keypt fíkniefni af hinum. Þeir áttu líka sameiginlega kúnna þannig að ef annar gat ekki boðið kúnnanum fíkniefni gat hinn gert það. [...] Þeir voru vinir og viðskiptafélagar ekki yfirmaður og starfsmaður.“
Spurður að því hvort algengt sé að erlendir aðilar séu hluti af starfsemi af þessu tagi í Brasilíu segir Giavarotti svo ekki vera, yfirleitt séu einstaklingarnir heimamenn.
Tuttugu og átta voru handteknir í aðgerðunum og segir Giavarotti að minnsta kosti tvær handtökur til viðbótar vera í farvatninu.
Hvað varðar framsal Sverris til annarra landa sé það ekki leyfilegt samkvæmt brasilískum lögum.
„Hann getur ekki verið framseldur annað. Hann er giftur brasilískri konu og þau eiga börn sem eru fædd hér. Lögin okkar leyfa ekki framsal í slíkum tilfellum,“ segir Giavarotti.