Verndarsjóður villtra laxastofna mótmælir harðlega fyrirhugaðri framkvæmd Landsvirkjunar með Hvammsvirkjun og segir framkvæmdina vera umhverfislega óábyrga á meðan Landsvirkjun geti ekki tryggt tilvist hins villta laxastofns í Þjórsá.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá verndarsjóðnum.
Segir verndarsjóðurinn framkvæmdina gríðarlega neikvæða fyrir villta laxastofna og lífríki Þjórsár.
„Landsvirkjun hefur ekki lausn á alvarlegum vandamálum sem munu stórskaða stærsta laxastofn á Íslandi og einn þann stærsta í Norður-Atlantshafi,“ segir í fréttatilkynningunni.
Minnt er á að þessi villti stofn tilheyri hvorki Íslendingum einum né eingöngu þeim kynslóðum sem nú lifa og er bent á að stofninn hafi verið þarna frá því löngu fyrir landnám og muni vera þar áfram ef mannanna verk koma ekki í veg fyrir það.
Í fréttatilkynningu Verndarsjóðsins er vísað til fréttaþáttarins Kveiks en þar benti oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps á það að hvergi hafi komið fram hvernig eigi að bregðast við ef laxastofnar og lífríki Þjórsár verði fyrir skaða. Þá segir að forstjóri Landsvirkjunar hafi ekki skýrt hvernig tryggt verði að stofninn verði ekki fyrir óafturkræfum skaða.
Verndarsjóður villtra laxastofna staðhæfir í fréttatilkynnigunni að eftirfarandi atriði munu skaða villtan lax í Þjórsá:
Þannig leggst Verndarsjóðurinn alfarið gegn áformum Landsvirkjunar á meðan fyrirtækið hyggst ekki tryggja öryggi og afkomu eins stærsta villta einstaka laxastofns Norður-Atlantshafsins, eins og fram kemur í fréttatilkynnigunni.