Frekar rólegt var hjá slökkviliðinu þennan fyrsta dag sumars en fjögur útköll voru sem öll leystust farsællega að sögn Bjarna Ingimarssonar varðstjóra hjá Slökkviliðinu.
„Það voru tveir sinubrunar, annar í Garðabæ og hinn í Grafarvogi. Það gekk vel að slökkva eldana, og við sendum bara einn bíl í hvort útkall,“ segir Bjarni en segir að ekki sé vitað hvað hafi ollið sinubrunanum.
Eitt útkall var út af eldi sem kviknaði í grilli í Breiðholti en það gekk bæði fljótt og vel að slökkva eldinn og engar skemmdir urðu.
„Síðan fórum við upp í Hvalfjörð þar sem við sáum reyk, en þar var verið að brenna sorp í tunnu sem ekki á að gera, en í þessu tilfelli var vel frá öllu gengið,“ segir Bjarni og segir að engin hætta hafi verið á ferðum.