Um fimmleytið í dag lauk urðun á fjárstofninum frá Syðri-Urriðaá í Miðfirði sem skorinn var niður á þriðjudag vegna riðu. Urðunin hófst fyrir hádegi í dag.
Þetta staðfestir Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, í samtali við mbl.is.
Sigurborg vildi ekki gefa upp hvar fjárstofninn var urðaður þar sem enn er verið að ganga frá staðnum.
„Það þarf að ganga frá urðunarstað og við þurfum vinnufrið til þess,“ segir Sigurborg.
Að sögn Sigurborgar gekk urðunin vel. Allt gekk samkvæmt áætlun.
„Það gekk mjög vel. Það voru góðar aðstæður til urðunar. Þetta gekk alveg samkvæmt áætlun.“