Dómsmálaráðuneytið braut lög

Héraðsdómur segir dómsmálaráðuneytið hafa brotið gegn meginreglunni um skyldubundið mat …
Héraðsdómur segir dómsmálaráðuneytið hafa brotið gegn meginreglunni um skyldubundið mat stjórnvalds. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Dómsmálaráðuneytið braut lög er það staðfesti úrskurð Fangelsismálastofnunar um að hafna umsókn dæmds nauðgara um að fá að afplána refsingu sína með samfélagsþjónustu.

Þetta kemur fram í nýbirtum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Maðurinn hafði gerst brotlegur við ákvæði almennra hegingarlaga um nauðgun og kynferðislega áreitni. Fékk hann tveggja ára fangelsisrefsingu fyrir brotið. Hann óskaði eftir að afplána refsingu sinni með samfélagsþjónustu.

Fangelsismálastofnun hafnaði aftur á móti umsókn hans og dómsmálaráðuneytið staðfesti þann úrskurð með vísan til þess að eðli brotsins væri með þeim hætti að almannahagsmunir mæltu gegn því að hann fengi að afplána refsingu sína með samfélagsþjónustu.

Valdsvið löggjafans, ekki stjórnvalda 

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að úrskurður dómsmálaráðuneytisins bryti gegn meginreglunni um skyldubundið mat stjórnvalds, enda fengi sú verklagsregla ekki staðist að synja um samfélagsþjónustu að öllu jöfnu í þeim tilvikum þar sem einstaklingar hafa verið dæmdir fyrir kynferðisbrot. 

Þá kemur fram í dómnum að það sé ekki stjórnvalda að ákveða hvort, og þá hvaða, brotaflokkar séu undanskildir heimildum laga um fullnustu refsinga, heldur sé það löggjafans að ákveða.

Deilt um undirritun

Í málinu var einnig deilt um það að ákvörðun Fangelsismálastofnunar um að hafna umsókn mannsins hafi ekki verið undirrituð af starfmanni stofnunarinnar.

Í dómnum kemur fram að aðili stjórnsýslumáls eigi almennt rétt á því að vita nöfn þeirra starfsmanna sem komið hafa að úrlausn máls til þess að ganga úr skugga um hvort hæfir starfsmenn hafi farið með mál hans.

Fangelsismálastofnun bar það fyrir sig að það væri verklagsregla hjá stofnuninni að almenn samskipti við skjólstæðinga væru ekki undirrituð með nafni viðkomandi starfsmanna. 

Héraðsdómur taldi þessa verklagsreglu, að halda nöfnum starfsmanna leyndum gagnvart skjólstæðingum stjórnvalds, hvorki samræmast ákvæðum stjórnsýslulaga né vönduðum stjórnsýsluháttum. Þessi verklagsregla sé ámælisverð en valdi þó eins og sér ekki ógildingu ákvörðunarinnar, en geti ásamt öðru leitt til ógildingar stjórnvaldsákvörðunar.

Brot gegn rannsóknarreglunni

Með hliðsjón af þeim ríku kröfum sem gerðar eru til vandaðra stjórnsýsluhátta var talið að brotið hefði verið gegn reglunni um skyldubundið mat stjórnvalda og þá um leið gegn rannsóknarreglunni sem kveðið er á um í 10. gr. stjórnsýslulaga.

Var úrskurður dómsmálaráðuneytisins ógiltur og ráðuneytinu gert að greiða manninum málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert