Unnið er nú úr þeim tillögum sem bárust Reykjavíkurborg í samkeppni um þróun Keldnalands. Alls bárust 36 tillögur og verða fimm þeirra valdar til þróunar á annað þrep. Vinnu á öðru þrepi mun ljúka þann 18. ágúst næstkomandi og búist er við því að niðurstaða liggi fyrir í september.
„Með samkeppninni er verið að leita eftir teymi með áhugaverða og raunsæja hugmynd að nýju þéttbyggðu, fjölbreyttu og kolefnishlutlausu hverfi, sem verður vel tengt innan borgarinnar og á höfuðborgarsvæðinu öllu. Á grunni áhugaverðustu hugmyndarinnar verður farið í frekari skipulagsvinnu að samkeppninni lokinni,“ segir á vef Reykjavíkurborgar en borgin ásamt Betri samgöngum ohf. standa að baki samkeppninni.