Hugbúnaðarfyrirtækið Miðeind stóð fyrir kynningu á forritinu Emblu á sumardaginn fyrsta í gær. Forritið var kynnt á opnum viðburði í nýju húsi íslenskunnar, sem hlaut nafnið Edda, og fengu gestir að spyrja Emblu spjörunum úr.
Forritið er ekki nýtt af nálinni og var fyrst kynnt til sögunnar fyrir tæpum þremur árum. Raddforritið talar og skilur íslensku og getur svarað spurningum notenda.
Nýjungar taka hins vegar við hjá Emblu, en út vikuna er forritið tengt við gervigreindarvirknina GPT-4, sem gerir Emblu kleift að svara fleiri spurningum en áður á íslensku.
GPT-4-tæknin í forritinu verður ókeypis í forritinu út vikuna, en Embla hefur ávallt verið ókeypis og verður það áfram.
Vilhjálmur Þorsteinsson framkvæmdastjóri Miðeindar segir að mikill áhugi hafi verið fyrir tækninni og fullt hús gesta hafi verið frá því dyr voru opnaðar klukkan tíu. Fólk sé mjög forvitið og spennt, og kom það mörgum á óvart hversu langt máltæknin er komin.
„Fyrir tíu árum hefði þetta þótt algjör vísindaskáldskapur,“ segir hann.
Spurður hvort nákvæmni tækninnar hafi vakið óhug meðal einhverra gesta svarar Vilhjálmur neitandi og að einstaklingum sem þyki almennt erfitt að nota tækni finnist mörgum forritið gera tæknina aðgengilegri, þar sem ekki þurfi að notast við takka heldur aðeins röddina.
Vilhjálmur segir spurningar gestanna hafa verið um allt milli himins og jarðar.
Fólk hafi spurt einfaldra spurninga eins og hvers kyns matseld megi nota tómata í, en einnig flóknari spurninga eins og hvað geti komið manni í gott skap. Ungur drengur í fylgd móður sinnar hafi meira að segja spurt Emblu hvernig hann gæti bætt samband sitt við móðurina.
Það er því orðið fátt sem þessi tækni stendur á gati í, segir Vilhjálmur en bætir þó við að Embla segi alltaf í lok svars að ráðum hennar og svörum skuli taka með fyrirvara.