Hinn látni með fleiri en einn stunguáverka

Grímur Grímsson hjá miðlægri deild lögreglu.
Grímur Grímsson hjá miðlægri deild lögreglu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Maðurinn sem lést í átökum á bílastæði Fjarðarkaupa var með fleiri en einn stunguáverka að sögn Gríms Grímssonar yfirmanns miðlægrar deildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglan yfirheyrir nú fjóra einstaklinga sem handteknir voru en hinn látni er á þrítugsaldri. 

„Það voru stunguáverkar í fleirtölu,“ segir Grímur spurður um fjölda stunguáverka. 

Grímur segir að verið sé að kanna hvers konar eggvopn var notað til verknaðarins. Þá sé ætlun lögreglu að skoða eftirlitsmyndavélar og hvort myndefni úr þeim geti varpað frekara ljósi á málið að sögn Gríms. Hann segir enn fremur að vitni hafi orðið að árásinni og ábending um átökin hafi borist frá vegfaranda.

Telja sig vera með þá sem tengjast málinu 

Fjórir voru handteknir vegna málsins en Grímur gefur ekki upp hver afstaða sakborninga er til sakargifta. „Hluti af rannsókninni er að kanna hvort það séu fleiri sem komi að málinu. Í augnablikinu teljum við okkur vera með þá sem tengjast málinu beint,“ segir Grímur. 

Grímur gefur ekkert út á það hvort málin tengist fíkniefnum og segir óljóst hvaða aðdragandi liggur að baki. Hann segir að vegfarandi hafi tilkynnt lögreglu um málið. „Það kunna að hafa verið einhver vitni að hluta átakanna eða aðdragandanum. Við fengum tilkynningu um þetta frá vegfarenda,“ segir Grímur. 

Spurður hvort hægt sé að nýta eftirlitsmyndavélar við rannsókn málsins þá segir Grímur verið að kanna það. „Við erum að kanna hvað af slíkum gögnum við getum notfært okkur,“ segir Grímur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka