Tónleikaferðalag Sinfóníuhljómsveitar Íslands um Bretlandseyjar hófst fyrir fullum sal í hinni sögufrægu Cadogan Hall í Lundúnum í gær.
Sveitin lék verkið Metacosmos eftir Önnu Þorvaldsdóttur ásamt píanókonsert númer 2 eftir Rakhmanínov og sinfóníu númer 5 eftir Tsjajkovskíundir stjórn Evu Ollikainen aðalhljómsveitarstjóra sveitarinnar. Anna er stödd í Lundúnum og segir það stórkostlega upplifun að vera með hljómsveitinni og „frábært að sjá þau blómstra í nýjum sal“.
Tónleikarnir í gær voru þeir fyrstu í tónleikaferðinni sem stendur fram á föstudag í næstu viku. Næstu tónleikar eru strax í kvöld en þá leikur hljómsveitin í Sinfóníusalnum í Birmingham. Þaðan liggur leiðin til Edinborgar en tónleikarnir verða alls sjö talsins.
Síðustu tónleikarnir verða á föstudaginn að viku liðinni.